Dude, are you trans?

Eyþór Óli. Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

Við hjá Góðum fréttum höfðum samband við Eyþór Óla Borgþórsson sem hefur talað opinskátt um ferlið sitt sem transeinstakling á Instagraminu sínu. Hann segir hér frá viðburði sem átti sér stað þegar hann var búsettur í Kanada snemma í ferlinu.


Eyþór Óli. Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

Það var fallegt um að litast í Vancouver þetta kvöld. Rauðbleikur himininn sleikti fjallstoppana og það var glampi í augum skiptinemanna sem voru fegnir að fá loks pásu frá lærdómnum. Leið þeirra lá á skemmtistaði borgarinnar til að dansa af sér vikuna.

Ég leit í spegilinn í litlu stúdíó íbúðinni minni á dorminu. Hugsanir streymdu fram: Mun einhver fatta að ég er trans? Eru það mjaðmirnar sem eiga eftir að gera útslagið? Kemst ég inná barina þar sem ég lít út fyrir að vera 16 ára?

„Þetta verður eitthvað,“ hugsaði ég.

Ég var hrikalega spenntur að kíkja út á lífið, sjá litrík andlit og eiga samræður við áhugavert fólk, en því fylgdi einnig töluverð angist. Ég fór í víðari buxur, setti gel í hárið og henti á mig derru. Svo rölti ég út í kvöldgoluna. 

Ég hitti krakkana við gosbrunninn á torginu sem teygði sig á milli allra háskólabygginganna. Þarna fór ég alltaf framhjá á hjólabrettinu á morgnanna með Starbucks í hendinni. Þessir krakkar kipptu sér ekki upp við það hvað ég var. Þegar ég kom í skólann kynnti ég mig sem strák og þar við sat. Ég gat byrjað á núllpunkti. Heima á Íslandi var raunin önnur en ég var skíthræddur við að segja fólki frá af ótta við höfnun eða að fólk tæki ekki mark á mér. Mig skorti kjark og hugrekki.

Við röltum á barinn í kvöldsólinni og það var mikið spjallað og hlegið, á öllum tungumálum. Þarna mættust einstaklingar af ýmsum þjóðernum, kynhneigðum og kynþáttum með ólíkar skoðanir og lífsreynslur að baki og í því lá fegurðin og stemningin. 

Við biðum í röð í dágóða stund. Ég komst inn á barinn eftir að tveir dyraverðir höfðu litið á skilríki mín og kinkað kolli hvor að öðrum sposkir á svip. Ég var hættur að kippa mér upp við þetta. Það var ekki þeim að kenna að ég liti út fyrir að vera 16 ára menntaskólastrákur en ekki 23 ára verkfræðinemi.

Kvöldið var skrautlegt. Samræðurnar fóru á mikla dýpt og dansskórnir fengu að finna fyrir því þess á milli. En óhjákvæmilega kom að því að ég þurfti að pissa. Ég botnaði bjórinn minn til þess að öðlast skammtíma sjálfstraust. Ég rétti úr bakinu, setti hendur í vasa og rölti í röðina á karlaklósettið, tilbúinn að dýpka röddina ef einhver yrti á mig. 

Ég hafði lært það í bíómyndum, þáttum og fréttum að trans fólk þyrfti að fara gætilega á salernum þar sem hætta væri á að vera laminn. Ég hafði lent í því á kvennaklósettum að konur sneru sér við og löbbuðu út þegar þær sáu mig standa þar. Í eitt skipti kallaði kona yfir allt salernið að það væri karlmaður inni á salerninu. Þá ákvað ég að það væri tími til kominn að fara að nota karlaklósettin. En ég þyrfti að passa mig þá að tala ekki til þess að láta röddina ekki koma upp um mig.

Ég stóð í röðinni þráðbeinn og skrollaði niður Instagram. Ég var búinn að koma auga á krakkana og skipuleggja flóttaplan ef eitthvað skildi fara úrskeiðis.  Ég var við það að komast að þegar hávaxinn, skeggjaður, sterklega byggður maður sneri sér í áttina á mér og hvíslaði: 

„Dude, are you trans?“

Mér dauðbrá. Allt sem ég óttaðist var að verða að veruleika. Hvað vill þessi náungi mér? Mun hann berja mig? Nú var að duga eða drepast. Ég leit í kringum mig, krosslagði hendur og kinkaði kolli. 

„Yes, I am. Why do you bother?“ 

Hann brosti góðlátlega til mín, mér til mikillar undrunar. Svo hneppti hann niður skyrtunni og ég gekk tvö skref aftur á bak. „Hvað vill hann núna?“ hugsaði ég. „Þetta er að taka skrítna stefnu.“

Þegar hann hafði hneppt niður fjórðu tölunni blöstu við mér falleg ör á bringunni hans. Hann brosti fallega til mín og sagði svo djúpri röddu:

„Me too.”

Ég fann hvernig ég léttist um nokkur kíló og hjartslátturinn róaðist. Það slokknaði á kvíðanum. Þessi strákur var stjarna í myrkri. 

Þetta kvöld lærði ég að hætta að búast alltaf við því versta. Við heyrum oft slæmar fréttir af meðferð á trans fólki en við heyrum sjaldnar af því fallega sem gerist í daglegu lífi. Áður fyrr var ég alltaf tilbúinn að verja mig gegn árásum því ég var búinn að læra að það væri manni eins og mér fyrir bestu. Nú veit ég betur. 

Í dag er ég búinn að vera ég sjálfur skuldlaust í 2 ár og hef fengið stuðning frá öllum í kringum mig. Ég hætti að drekka í mig sjálfstraust og reyni að bæta mig á hverjum degi fyrir sjálfan mig og aðra. 

Margir standa með manni, flestir pæla ekki í manni því þeir eru nógu uppteknir af sjálfum sér og örfáir vinna á móti manni vegna fáfræði sinnar. En gjörðir þeirra síðastnefndu mynda þær sögur sem fréttamiðlarnir eru fljótir að taka upp og fjalla um. Þrátt fyrir það verða þessar fréttir að fá að heyrast óritskoðaðar til þess að heimurinn geti brugðist við ranglæti, en það er ljóst að þörf er á að gefa góðum fréttum meira vægi. Við eigum öll skilið að fá að sjá heiminn í bjartara ljósi.

Eyþór Óli. Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

#TransRightsAreHumanRights