Hugleiðir fyrir allar sýningar

Bahía Aurelie. Ljósmynd/Jóhannes Hrefnuson Karlsson

Bahía Aurelie er upprennandi fjöllistakona sem dreymir um að leika á stóra skjánum við hlið Zendayu og Opruh Winfrey. Hún ræddi við Góðar fréttir um vonir og væntingar sínar, lífstíl og reynslu uppi á sviði.

Fjöllistakona, ballerína, frumkvöðull og íþróttaálfur; það er fátt sem Bahía Aurelie (stundum kölluð Pæja) getur ekki tekið sér fyrir hendur. Bahía sem er 18 ára talar reiprennandi íslensku, ensku, spænsku og ítölsku. Hún ólst upp með fjölskyldu sem leggur ríka áherslu á heildræna nálgun á lífstíl og heilsu. Bahía hefur fjölbreyttan bakgrunn í íþróttum, stundar leiklistarnám í Borgarholtsskóla og hefur verið að koma fram á sviði síðan hún var sex ára gömul. Í dag sérhæfir hún sig í silki loftfimleikum en mögulega hafa lesendur rekist á hana í sumar að stunda fjöllistir með Sirkus Unga Fólksins í samstarfi við Hitt Húsið.

Sirkus unga fólksins, Bahía stendur lengst til hægri. Ljósmynd/Facebook Listhópar Hins Hússins

Bahía, nú er þér margt til lista lagt og hefur þú verið að taka að þér ýmis hlutverk á sviði. Hvað viltu verða þegar þú ert orðin stór?

„Ég er núna að taka sirkusinn eins langt og ég get. Mér finnst listir, sérstaklega leiklistin, koma svo sterkt fram þar. Leiklistin er núna mitt aðalmarkmið. Ég er líka búin að vera með annan fótinn í viðskiptaheiminum. Ég er með starfsemi hjá nýsköpunarfyrirtæki sem snýr að líkamlegri og andlegri heilsu og ég á einnig hlut í fjölskyldufyrirtækinu okkar Eldur og Ís á Skólavörðustíg.“

Hvernig myndir þú lýsa sjálfri þér?

„Ég myndi segja að ég hafi mjög sterkan vilja og fullnýti hæfileika mína eftir bestu getu. Ég æfi eins mikið og ég get heima og hef mikinn drifkraft. Aðrir hafa stundum sagt mig óþolandi jákvæða og að ég sé of mikill orkubolti, en ég tek því bara sem hrósi.“

Eru viðskipti eitthvað sem þú vilt leggja sérstaka áherslu á í framtíðinni?

Sirkus unga fólksins, Bahía situr fyrir miðju. Ljósmynd/Jóhannes Hrefnuson Karlsson

„Já og nei. Ef þú pælir í því eru allar stórstjörnur með hliðarviðskipti, hvort sem það eru snyrtivörur eða hringborðsþættir eins og Red Table Talk með Willow Smith – þar sem er verið að gera ótrúlega góða hluti fyrir samfélagið með því að ræða mikilvæg málefni. Ég held það sé ótrúlega magnað þegar þú ert komin í sviðsljósið og fólk hlustar á þig. Þaðan geturðu haft svo mikil áhrif. Þannig virkar þetta. Þegar einhver lítur upp til þín geturðu skilið eftir þig spor og tekið þátt í að bæta líf annarra með heildrænni nálgun.“

Andleg heilsa og vellíðan er þér greinilega mjög mikilvæg. Myndirðu vilja stofna þinn eigin hringborðsþátt á borð við Red Table Talk?

„Já! En ég held ég gæti það ekki. Ég myndi án gríns alltaf fara strax að gráta .Ég er svo ótrúlega tilfinninganæm.“

Sem svona mikil athafnamanneskja, hvað finnst þér mikilvægast þegar kemur að heilsu?

„Fyrst var ég að vanda mig við að borða bara tvisvar á dag, það hins vegar nægði mér ekki og var að eyðileggja meltingarkerfið, en ég hef aldrei haft mikla matarlyst. Ég fór síðan til miðils sem hjálpaði mér mikið. Hún talar meðal annars við forfeður manns. Hún sagði að líkami minn væri að öskra á sjálfbærara mataræði. Nú borða ég fjórum sinnum á dag og passa upp á að fá nóg af prótíni. Ég borða mikið af hnetum og eins mikið af ávöxtum og ég get troðið í mig. Svo hugleiði ég alltaf fyrir sýningar og þegar mér líður illa, en ég fæ alltaf mikinn sviðskrekk fyrir sýningar og líður eins og ég þurfi að æla. En allt sem mér finnst vont forðast ég, því ég treysti því að líkaminn viti hvað hann þurfi. Ég gekk í Waldorf-skólann á Lækjarbotnum sem kennir manni jarðtengingu. Fólk veit oft ekki hvaðan maturinn sem það borðar kemur og það skiptir miklu máli. Það skiptir ekki öllu máli hvað þú ert að borða svo framarlega sem þú hefur jákvæða tengingu við matinn þinn.“