Nýtur þess að skapa ævintýraheima í list sinni

María Carmela Torrini. Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

Stuttmyndir Carmelu einkennast af einlægni, fegurð og töfrum

Kvikmyndagerðakonan María Carmela Torrini er 21 árs gömul og ólst upp í Breiðholtinu. Nafnið kemur frá Ítalíu, heimalandi föður hennar, en móðir hennar er íslensk. Frá unga aldri var Carmela með kvikmyndavélina á lofti. „Ég hef ótrúlega gaman af kvikmyndagerð því þá fæ ég að búa til alveg nýjan heim. Svo hefur mér alltaf þótt mjög gaman af því að búa til sögur og gera alls konar sem fólk er ekkert endilega vant að sjá,“ segir Carmela.

María Carmela Torrini. Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

Stuttmyndir hennar hafa vakið athygli fyrir frumlegt sjónarhorn og ævintýralegan blæ. Hún segist jafnframt elska að horfa á teiknimyndir og sækir áhrif þaðan.Tólf ára gömul skrifaði Carmela sína fyrstu stuttmynd Kjallarinn. Hún hafði samband við Kvikmyndaskóla Íslands varðandi samstarf og í þriðju tilraun var það samþykkt. „Þau voru að gera svo margt á þessum tíma en ég var mjög ákveðin og ætlaði ekki að gefast upp. Það endaði þannig að við byrjuðum í þessu ferli og það var alveg magnað. Ég lenti á svo ótrúlega flottu fólki og lærði margt af þeim.“

Vekur heiminn til vitundar um birtingarmyndir einhverfu
Reglur leiksins er stuttmynd eftir Carmelu sem kom út árið 2018.

Hún fjallar um Lúnu, einhverfa stúlku sem þarf að leysa nokkrar erfiðar þrautir. „Myndin var tekin upp á tíma þar sem ég var sjálf mikið að upplifa einhverfuköst. Það þyrmdi stundum yfir mig þegar ég var úti á götu og fólk sem kom að mér hélt alltaf að ég væri undir áhrifum fíkniefna. Þá gerði ég mér grein fyrir því að það er ekkert rosalega mikið vitað um einhverfu og hvernig hún getur birst hjá fólki.

Skynfærin okkar eru miklu næmari en hjá flestum sem eru ekki einhverfir. Maður tekur eftir öllum smáatriðum miklu betur en aðrir og getur því oft ekki einbeitt sér en einhverfa birtist auðvitað á mismunandi hátt. Í Reglur Leiksins sýni ég einhverfu eins og ég upplifi hana. Það stakk mig þegar ég var lítil og var sögð vera óþæg og frek en ég tók oft kast þegar ég fór í Kringluna. Þegar ég greindist með einhverfu sextán ára gömul útskýrði það hvað var á bak við þessa hegðun,“  segir Carmela. Reglur leiksins vann öll verðlaun á Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna og verðlaun Ung og kvik. Hægt er að nálgast þessa frábæru stuttmynd á Youtube.

Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

Fiskur á Mars
Í sumar tók Carmela upp nýja stuttmynd sem ber heitið Fiskur á Mars en hún tileinkar hana föður sínum sem lést skyndilega á síðasta ári. „Ég byrjaði að skrifa hana áður en pabbi minn dó. Hann var mikill áhugamaður um geiminn og hafði gífurlega þekkingu á því sviði. Fiskur á Mars fjallar um geimveru sem er strandaglópur á jörðinni. Hún kynnist jarðarbúa sem hjálpar henni að komast aftur heim til sín. Þegar við vorum að taka upp eina af lokasenunum þar sem stelpan þarf að kveðja geimveruna leið mér eins og ég væri að tala við pabba minn og kveðja hann. Þetta verkefni hefur hjálpað mér mikið í sorgarferlinu. Pabbi minn studdi mig mjög mikið í því sem ég vildi gera sem listamaður. Hann var alltaf til í að keyra mig í prufur og hjálpa mér með allt sem ég vildi gera tengt listinni. Þessi stuðningur skipti mig ótrúlega miklu máli,“  segir Carmela. 

En hvenær má gera ráð fyrir því að Fiskur á Mars verði frumsýnd? 
„Við búumst við því að það verði mikið af göldrum í eftirvinnslunni þannig að  þetta verður jólamynd sem gerist um sumar. Ekkert í þessu meikar sens. En einmitt það gerir þetta verkefni svo skemmtilegt!“ segir Carmela að lokum og hlær.