Mæðrapistill

  Anita Da Silva Bjarnadóttir og sonur hennar. Ljósmynd/Aðsend

  Anita Da Silva Bjarnadóttir skrifar um hugrenningar sínar fyrr á árinu eftir fyrsta mæðradaginn sem hún upplifði eftir að hún varð sjálf móðir.

  Frá mínum dýpstu hjartarótum
  Nú þegar fyrsti mæðradagur minn sem móðir er liðinn, langaði mig að lofta aðeins um hlutverkið. Mín reynsla hefur ávallt verið lituð af samskiptum mínum, eða skort þar á, við mína eigin móður og haft áhrif á afstöðu mína í garð annarra mæðra.

  Ég hef annað hvort ekki tengt við þær og hvernig það er að alast upp með slíkri eða þá óskað þess að eiga sjálf góða móður.

  Það er oft talað um hvað mæður fórna miklu fyrir börnin sín. Að maður myndi drepa fyrir þau, deyja og lifa fyrir þau og ég hef alltaf vitað að í langflestum tilfellum er það rétt, en ég hef aldrei vitað það betur en í dag.

  Sonur minn er kominn í þennan heim og hann er kominn til að vera og það er satt sem sagt er að það er ólýsanleg ást sem fer þar á milli. Það er ekki til veraldlegur hlutur eða manneskja sem mun nokkurn tímann vera jafn mikilvæg fyrir mér og strákurinn minn og þannig á það að vera. Það er ekki til verkur á meðgöngu né svefnlausar nætur sem myndu fá mig til að sjá eftir honum og ég myndi ganga í gegnum þetta allt aftur. Þó þetta væri það eina sem ég afrekaði í lífinu þá yrði ég sátt, svo mikill er tilgangurinn.

  Þegar ég vakna kl 5:57 með honum til þess að gefa honum að drekka, held höfði verr en hann og píri augun, en get samt ekki annað en brosað út að eyrum á milli þess sem ég kyssi þessar litlu tær sem mér tókst að skapa, hverju hef ég þá í raun fórnað?

  Gjörsamlega engu. Ég hef ferðast, elskað og skemmt mér og nú hef ég nýjan félaga í gegnum þetta allt saman.

  Við erum þar sem við eigum að vera, saman. Ég og hann. Alltaf. 

  Ég elska þig hjartans ástin mín, þú ert draumurinn minn og dáður af öllum sem hitta þig, enda magnaður lítill drengur sem mun verða mögnuð manneskja.

  Til hamingju mæður, nú frá mínum dýpstu hjartarótum.

  Anita Da Silva Bjarnadóttir og sonur hennar. Ljósmynd/Aðsend