Bríet Kristjánsdóttir: Finnst skemmtilegast að leika kröftugar konur

Bríet Ósk. Ljósmynd/Chad Narducci

Bríet Kristjánsdóttir hefur síðustu ári vakið verðskuldaða athygli á hvíta tjaldinu. Hún hefur leikið hlutverk í þáttum á borð við Blindspot, Life as a mermaid og Life is strange 2. Eitt af nýjustu verkefnunum er Eurovision kvikmynd Will Ferrell sem var tekin upp að hluta til hér á landi og var frumsýnd á Netflix þann 26. júní.

Aðspurð segist Bríet alltaf hafa vitað að hún vildi verða leikkona. Henni fannst margt annað spennandi eins og að verða vísindamaður, geimfari, dýralæknir og listmálari. „Það góða við leiklistina er að maður getur í raun og veru fengið að prófa að vera svo ótalmargt, að setja sig í spor alls konar fólks í alls kyns stéttum og af mismunandi bakgrunnum, svo leiklistin varð fyrir valinu og það var ákvörðun sem ég tók mjög ung. Ég skildi í raun og veru aldrei að það vildu ekki allir verða leikarar. Mér fannst þetta alltaf liggja í augum uppi að þetta er auðvitað það sem er skemmtilegast að gera í lífinu. Ég skil stundum ekki ennþá að það séu ekki allir á sama máli og ég með það!”

Bríet sem er fædd árið 1992 í Vesturbæ Reykjavíkur naut sín á menntaskólaárunum við söngleikjauppfærslur í Verzlunarskóla Íslands. Þaðan lá leiðin í American Academy of Dramatic Arts í Los Angeles en eftir útskriftina árið 2014 hefur hún haft nóg að gera í kvikmyndabransanum erlendis.

Bríet Kristjánsdóttir. Ljósmynd/Antonía Lárusdóttir.

Gott að vera frá Íslandi
„Ég heillaðist alveg af American Academy of Dramatic Arts í Los Angeles, enda eru þau þekkt fyrir mikla velgengni nemenda sinna. Þaðan hafa t.d Adrien Brody, Paul Rudd og Anne Hathaway útskrifast, til að nefna nokkra. Svo það varð eini leiklistarskólinn sem ég sótti nokkurn tímann um. Þau héldu prufur í London og nokkrum dögum eftir prufurnar fékk ég símtal frá skólastjóranum og mér var boðin innganga. Til að gera það símtal ennþá skemmtilegra var mér boðinn einn af hæstu skólastyrkjunum frá þeim”

Bríet skartar nafninu Brie Kristiansen á erlendri grundu til að auðvelda framburðinn en að öðru leyti segir hún að það komi sér vel að vera frá Íslandi „Það sem hefur hjálpað mér mikið og sérstaklega til að byrja með var að hafa eitthvað svona ‘öðruvísi’. Til dæmis að vera útlendingur sem talar fleiri tungumál en ensku. Ég hef reynt að nýta mér það eftir bestu getu. Þá hef ég verið að reyna að notfæra mér það að ég er hávaxin og ljós í yfirlitum og hef því mikið verið kölluð inn fyrir karaktera sem eru t.d. Svíar, Þjóðverjar, Austur – Evrópubúar og auðvitað Íslendingar. Ísland er náttúrulega komið svo mikið í tísku. Það þykir mjög flott að vera héðan núna”

Bríet Kristjánsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Í hlutverkum sterkra kvenna
Fyrsta hlutverk Bríetar að útskrift lokinni og jafnframt eitt af hennar stærstu hlutverkum var Astrid í sjónvarpsþáttunum “Life as a mermaid” sem var skrifað sérstaklega fyrir hana eftir að leikstjórinn hafði hitt hana í frumsýningarpartýi. 

„Við spjölluðum bara í einhverjar tvær mínútur. Ég vissi reyndar hver hún var, svo ég var alveg sérstaklega meðvituð um að heilla hana” segir Bríet og hlær. „Svo heyrði hún í mér ári seinna og þá hafði hún búið til þennan karakter fyrir mig. Það var æði, en líka bara fyndið að karakterinn skuli vera  þessi illkvittna týpa sem svífst einskis til að fá það sem hún vill. Æðislegur karakter að leika og eitthvað sem kemur til mín mjög náttúrulega einhverra hluta vegna” segir Bríet og hlær meira. „Þetta var ótrúlega gaman. Það var algjör draumur að vera á setti alla daga og fá að lifa á því að vera leikkona beint eftir námið. Ég er mjög þakklát fyrir þá reynslu”

Bríet hefur að eigin sögn verið heppin með fjölbreytt og skemmtileg hlutverk en þrátt fyrir það eiga þau oft það sameiginlegt að sýna sterkar konur sem láta í sér heyra og taka málin í sínar eigin hendur. Í sumum tilvikum eins og í þáttunum “Life as a mermaid” myndu þær flokkast sem aðal illmennið. „Ég hef alltaf verið með sterkar skoðanir og læt í mér heyra, það fylgir kannski bara nafninu” segir Bríet en hún er þá að sjálfsögðu að vísa í Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, eina af okkar fyrstu og fremstu konum í kvenréttindabaráttunni á Íslandi. „Það er mikill kraftur í þessum karakterum og eitthvað svo ótrúlega áhugavert að setja sig í þeirra spor. Mér finnst það líka oft vera miklu öflugri leikur að hafa konu í hlutverki „vonda karlsins”. Það nær manni einhvern veginn aðeins betur”

Bríet Kristjánsdóttir. Ljósmynd/Álfheiður Björk Bridde

Frumsýningar á árinu
Bríet segir að þetta séu skemmtilegir tímar til að vera listakona, svo margar dyr að opnast og miklu fleiri farnir að taka eftir stöðu kvenna í kvikmyndabransanum og skoða það hvort kvikmynd standist Bechdel prófið. Til að kvikmynd nái því verður hún að innihalda að minnsta kosti tvær konur sem eru að tala saman um eitthvað annað en karlmann. „Það er frábært að það sé að gerast núna og vonandi heldur þetta áfram að breytast mjög hratt þangað til það verður allt í jafnvægi, en á meðan við erum á leiðinni þangað held ég glöð áfram að leggja mitt af mörkum með því að taka að mér hlutverk kvenskörunga” segir Bríet og brosir.

Það er ýmislegt framundan hjá Bríeti, þar á meðal  frumsýningar á tveimur kvikmyndum. Í annarri þeirra sem kemur út seinna á árinu er hún í einu af aðalhlutverkunum sem á ensku kallast „romantic lead” eða rómantískt aðalhlutverk. Svo er það Eurovision kvikmynd Will Ferrell. „Karakterinn sem ég leik í myndinni heitir Ros. Þetta var virkilega skemmtileg upplifun. Allir sem ég hitti á setti, leikarar og aðrir voru svo jarðtengdir og yndislegir. 

Ég er mikill Eurovision aðdáandi svo það var alveg sérstaklega skemmtilegt að fá að taka þátt í þessu verkefni. Ég mæli eindregið með því að kíkja á myndina inn á Netflix”