Guðni Th: Hver er sinnar gæfu smiður?

Guðni Th. Jóhannesson á Bessastöðum. Ljósmynd/Oddvar Örn Hjartarson

Blaðamaður Góðra frétta, í fylgd ljósmyndara, heimsóttu Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands. Á Bessastöðum veittu Guðni og starfslið hans hlýjar viðtökur. Það er ekki hægt að lýsa Guðna öðruvísi en ákveðnum, málgefnum einstaklingi, ansi vingjarnlegum og með þægilega nærveru.

Nú ert þú búinn að gegna embætti forseta í fjögur ár. Hvað hafa þessi ár kennt þér?
„Þau hafa kennt mér ansi margt um mig sjálfan, okkar samfélag og heiminn allan. Þau hafa meðal annars kennt mér að bjartsýni og jákvæðni koma sér vel en verða að vera blandin raunsæi og æðruleysi. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum öll breysk og náum ekki alltaf að fara eftir því sem við viljum fara eftir.“

Að þínu mati, hvaða dyggðir og eiginleika þarf góður forseti að temja sér?
„Já, þegar stórt er spurt! Enginn er dómari í eigin sök en að mínu mati þarf forseti að leitast við að efla það sem sameinar okkur í samfélaginu og vinna gegn sundrungu og ósætti. Forseta þarf að vera annt um samfélagið allt. Forseti ætti að stefna að því að láta alla finna að enginn á að vera settur skör neðar en aðrir, að allir geti notið sömu virðingar og reisnar. Allir eiga að fá tækifæri til að sýna hvað í þeim býr, sjálfum sér og öðrum til heilla.“

Forsetinn okkar. Ljósmynd/Oddvar Örn Hjartarson

Guðni segir mikilvægt að leyfa fólki að skara fram úr og njóta ávaxta eigin erfiðis og dugnaðar. Hann segir að um leið þurfum við sem samfélag að hjálpa öllum sem þurfa á hjálp að halda.

„Við verðum að átta okkur á því að áföll geta dunið yfir. Við eigum þetta máltæki hér á Íslandi: Hver er sinnar gæfu smiður. Hins vegar finnst mér stundum gott að hafa í huga að það er líka hægt að setja spurningarmerki á eftir og spyrja: Hver er sinnar gæfu smiður? Við mótum okkar eigin framtíð með okkar eigin ákvörðunum og okkar eigin vilja, en um leið er enginn eyland. Við ráðum ekki öllu sem fyrir okkur kemur og verðum að vera búin undir að takast á við hið óvænta, allskonar áföll og mótlæti. Það geta ekki allir draumar ræst og þá þurfum við að vera undir það búin að fara aðra leið heldur en við ætluðum í upphafi.“

Hversu mikilvæg er jákvæðni og bjartsýni í þínu starfi?
„Klassíska dæmið er að spyrja hvort glasið er hálffullt eða hálftómt. Flestir myndu svara því svo að það sé betra að líta á það sem hálffullt og tækifærin bíði fram undan. Um leið verðum við samt að varast að verða ekki eins og Pollýanna í sögunni sem vildi einungis gera það besta úr öllu og sjá einungis björtu hliðarnar á öllu því að þannig komumst við því miður ekki í gegnum lífið.“

Guðni talar um að sem forseti sé eitt af hlutverkum hans að vera jákvæður.

„Það er nánast skrifað í starfslýsingu forsetans að vera jákvæður, vera bjartsýnn. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig því yrði tekið ef ég myndi hefja nýársávarp með því að segja:
„Góðir Íslendingar, nú er nýtt ár hafið. Ég held að þetta verði ömurlegt ár, og það er ekkert sem ég get gert í því,“ segir Guðni og hlær.
Sú eða sá sem gegnir þessu embætti hverju sinni verður að geta horft björtum augum til framtíðar, verður að vilja stappa stálinu í fólk frekar en að hafa allt á hornum sér.“

Ljósmynd/Oddvar Örn Hjartarson

Hann ítrekar einnig mikilvægi raunsæis og nefnir Covid-19 faraldurinn sem dæmi. 

„Við Íslendingar getum verið sátt við hvernig til hefur tekist í baráttu okkar við veiruna skæðu. Við stöndum saman og treystum okkar einvalaliði, treystum á mátt samstöðu og vísinda. Nú verðum við að gera okkur grein fyrir því að búast má við að veturinn verði okkur erfiður í mörgu tilliti, og þá er einmitt betra að vera undir það búinn frekar en að láta það koma okkur í opna skjöldu.“

Er eitthvað sem kom þér á óvart við forsetaembættið?
„Já og nei. Ég þóttist vita að hverju ég gengi. Í mínum störfum sem sagnfræðingur hafði ég rannsakað sögu fyrri forseta og bjó að því. Á hinn bóginn nýtist sú vitneskja ekki við allar aðstæður. Þetta embætti er þess eðlis að það veit enginn í raun til fulls hvað í því felst nema unnt sé að reyna á það á eigin skinni. Ég veit að hver dagur getur fært nýjar og óvæntar áskoranir og maður verður að vera við því búinn.“

Hvað langar þig að skilja eftir þig, sem forseti Íslands?
„Samfélag sem er betra í dag en það var í gær og ég geti sagt við sjálfan mig og aðra að ég hafi gegnt þessu starfi eftir bestu getu og samvisku. Meira bið ég nú ekki um.“

Hvað finnst þér best við starfið þitt?
„Hvers kyns viðfangsefni og áskoranir sem fylgja starfinu eru skemmtilegar. Ég nýt þess að hitta fólk víða, innanlands sem utan, og finna þann hlýhug sem fólk ber til embættisins. Oft er dagskráin þétt og vera má að það álag segi stundum til sín en ég kvarta alls ekki. Það er einstakur heiður hvern einasta dag að gegna þessu embætti.“

Guðni Th. Jóhannesson var endurkjörinn sem forseti og mun hann, ásamt fjölskyldu sinni, dvelja á Bessastöðum í að minnsta kosti í fjögur ár í viðbót.