Hláturjóga hrífur landsmenn og færir bros á vör

Ásta Valdimarsdóttir. Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

Jóga verður sífellt vinsælla á Íslandi og margs konar jóga er í boði. Þar má telja jógaflæði, Kundalini jóga, jógaslökun og margt fleira. Ein tegund af jóga notast við hlátur og gleðitilfinningu sem aðaláhersluefni. Ásta Valdimarsdóttir hefur haldið uppi hláturjóga á Íslandi til margra ára. Hún er eini hláturjógakennarinn á Íslandi og kætir og bætir skap landsmanna.

Hláturjóga er aðferð til að fá fólk til að hlæja meira í lífinu. Til þess eru notaðar skipulagðar æfingar, hreyfingar og augnsamband. Augnsambandið er einn mikilvægasti þáttur hláturjóga vegna þess að hlátur smitast auðveldlega milli þeirra sem deila augnsambandinu. Dr. Madan Kataria fann upp á þessari bráðfyndnu aðferð til að stunda jóga. Hann vann áður sem læknir og hafði lengi íhugað hvernig hann gæti fært meiri gleði og hlátur inn í líf sitt og sjúklinga sinna.

Þáttakenndur nota augnsamband og ákveðnar hreyfingar. Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

Uppruni hláturjóga
Eina nótt, árið 1995, vaknaði Dr. Kataria klukkan fjögur um nótt af værum svefni og fékk skyndilega hugdettu um að stofna hláturklúbb. Morguninn eftir fór hann með fjórar manneskjur i skemmtigarð. Þau sögðu brandara og hlógu og þar með var hláturklúbburinn stofnaður. Þau endurtóku leikinn dag eftir dag og smám saman bættust fleiri við í hópinn. Loks voru allir góðir brandarar sagðir og í staðinn komu upp neikvæðir og ljótir brandarar. Þá fyrst fór fólk að tínast í burtu. Það þýddi greinilega ekki að segja aðeins brandara heldur þurfti meira til að skipuleggja góða hláturtíma. 

Dr. Kataria setti saman æfingar sem virkuðu svo vel að nú eru þær kenndar víðsvegar um heim. Hlátur eykur endorfín og serótónín í líkamanum sem eykur vellíðan einstaklinga. Auk þess myndast samkennd með augnsambandinu. Allir eru á sama bretti, það er enginn æðri öðrum,” segir Ásta. Það spyr enginn hvaðan þú kemur, hver þú ert eða hverrar trúar þú ert. Allir hlæja saman, það er mjög mikið atriði.” 

Frelsi, samkennd og gleði myndast við hlátur og augnsamband
Ásta segir að það sé mikilvægt að það verði til mikil gleði og samkennd þegar horft er í augun á einhverjum og hlegið, því þá er ekki rými fyrir slæmar hugsanir í garð viðkomandi. Það er visst frelsi að horfast í augu og hlæja,” segir Ásta. Það er nauðsynlegt að hafa hláturjógaleiðbeinanda en Ásta hefur kennt fjölmörgum þá tækni og samtals eru nú hátt í 50 leiðbeinendur um allt land. „Þeir halda utan um hópinn og útskýra æfingarnar en í þeim felst mikil leikræn tjáning, eins konar hlutverkaleikur. Að sækja oft hláturjógatíma ýtir undir bros- og hláturmildi,“ segir Ásta.

Ef þú ferð oft í hláturjóga þá temur þú þér að vera brosandi og hlæjandi. Þetta verður hluti af lífinu, þar með verða hugsanirnar jákvæðari. Maður ræður til dæmis betur við neikvæðar hugsanir sem oft ásækja marga.” Ásta segir að teknar voru tölur af jákvæðum og neikvæðum orðum í þýskum orðabókum og reyndust neikvæðu orðin miklu fleiri. Hún segir að þetta endurspegli viðhorf okkar i samfélaginu. Við sjáum frekar neikvæðar aðstæður í stað þess að horfa á björtu hliðarnar og komast að því hvað við viljum fyrir okkur sjálf. Jákvæðu orðin hafa gríðarmikið að segja. 

Gréta Arnarsdóttir og Ásta Valdimarsdóttir. Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

Hláturjóga bætir og kætir
Ásta segir að við hláturjóga verður viðhorfið bjartara. Sjálfsmyndin batnar, öðruvísi sjálfsgagnrýni og litlu jákvæðu hlutirnir í lífinu verða veigameiri. Í stað þess að rakka sig niður fyrir mistök einbeitir viðkomandi á að gera betur næst. Næmni fyrir þörfum líkamans batnar og mataræði og hreyfing komast í betra lag. Hreyfingarnar í hláturjóga eru til þess að efla djúpöndun og samstöðu en viðbótarhreyfing er nauðsynleg fyrir líkamann. Hláturjóga er viðbót við allt sem er gott,” segir Ásta.

Aðspurð hvaða hlutverki jóga gegnir í hláturjóga segir Ásta að Madhuri Kataria sé jógakennari og hafi bætt inn í hláturtímana djúpönduræfingum, jógateygjum, slökun og hugleiðslu. Þess vegna má flokka þessa hláturtíma undir jóga.

Gréta Arnarsdóttir og Ásta Valdimarsdóttir. Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

Hverjir sækja helst í hláturjóga?
Fólk sem vill fá meira út úr lífinu, sem hugsar: Hvað get ég gert til að bæta líf mitt?” Ein kona kom og sagðist ekki hafa hlegið í tvö ár. Það kemur mörgum á óvart hversu auðveldar æfingarnar eru. Sumir fara í mótstöðu og telja sig ekki geta hlegið en það er mjög sjaldan sem einhver getur alls ekki verið með eða tengir ekki við æfingarnar. Fólk nýtur sín og hefur gaman. Þetta er uppbyggjandi, jákvætt og eflir gleðina. Útgangspunkturinn er alltaf gleðin.” 

Allir frá 3 ára aldri geta tekið þátt. Æfingarnar henta vel til að hrista saman aldurshópa, vinnuhópa og aðra hópa þar sem fólk kemur úr ólíkum áttum. Til eru æfingar sem ganga út á að kynnast og læra nöfn. Að lokum segist Ásta vera ævarandi þakklát að hafa „álpast“ inn í þetta sjálf. Mörgum finnst þeir ekki hlæja nógu mikið og Ásta segist hafa verið ein af þeim áður en hún kynntist upplífgandi mætti hláturjóga.