Parið sem stofnaði Góðar fréttir

Saga Yr Nazari og Bjarki Steinn. Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

Bjarki Steinn Pétursson og Saga Yr Nazari eru ungt og metnaðarfullt par sem gerðu sér lítið fyrir og stofnuðu fréttamiðilinn Góðar Fréttir. 

Markmiðið með Góðum Fréttum er að koma á framfæri hvetjandi, jákvæðum og uppbyggjandi fréttum, greinum og pistlum. Góðar Fréttir munu birta efni sem einblínir á björtu hliðar lífsins og heimsins. Miðillinn er fordæmalaus hérlendis, að minnsta kosti af slíkri stærðargráðu, en parið hefur fengið til liðs með sér stóran hóp af fólki sem vinnur óþreyjufullt við að koma miðlinum á laggirnar.

Þrátt fyrir ólíkan uppruna er augljóst að margir þræðir tvinna parið saman en parið á þá forsögu að baki sem lýsir einstöku hugrekki og styrk.  

Fæddur í röngum líkama
„Ég er 25 ára og ólst upp í Hafnarfirði alla mína æsku og unglingsár. Við fæðingu var mér úthlutað röngu kyni og var gefið stelpunafn, en það er skemmtileg staðreynd að mamma var sannfærð alla meðgönguna um að hún gekk með strák. Hún var meira segja svo viss um það að fjölskyldan var búin að velja nafn á mig og allt saman. Nafnið var Bjarki. Það er einmitt nafnið sem ég tók síðan upp þegar ég kom út sem trans-manneskja fyrir tveimur árum,“ segir Bjarki Steinn.

Bjarki og Saga kynntust í gegnum tónlist en þau tala bæði um tónlistina sem hefur alltaf fylgt þeim. Saga er sjálfstæð tónlistarkona og hefur sungið og skrifað texta frá því að hún man eftir sér.

„Árið 2017 urðu stór kaflaskipti í lífi mínu þegar ég tók þá ákvörðun að fara í meðferð. Ég var með skrifað á útskriftarplaggið mitt að ég skyldi sanna það fyrir mér að ég gæti samið, tekið upp og gefið út eitt lag. Ég notaði einmitt söng og skrif til þess að hjálpa mér að koma mér í gegnum meðferðina sjálfa, eins og svo margt annað í lífinu,“ segir Saga brosandi og bætir við: „Í dag hef ég komið sjálfri mér á óvart á sviðum sem ég hefði aldrei getað ímyndað mér að ég ætti séns á. Öllum markmiðum sem ég setti mér í meðferð hef ég náð og ég hef fengið að skapa mér svo fallegt líf sem er ennþá að stækka. Ég hef til dæmis fengið þann heiður að syngja fyrir hina elskulegu Vigdísi Finnbogadóttur í forvarnarskyni, ferðast út á land og farið með fyrirlestra, verið í miklu samstarfi við Ég á bara eitt líf og fengið að vera edrú fyrirmynd fyrir ungt fólk. Fyrir mér er það stærsta gjöfin“.

Bjarki Steinn og Saga Nazari. Ljósmynd/Ríkey Konráðs

Góðar Fréttir í heitum potti
„Sumarið 2019 sátum við í heitum potti og vorum að spjalla. Ég talaði um vöntun á jákvæðum fréttum og Bjarki svaraði ákafur að hann væri búinn að vera að hugsa þetta í mörg ár! Við vorum bæði meira en minna búin að sía út flesta fjölmiðla þar sem meginþungi fréttaflutnings hefur lengi verið svo neikvæður. Mér fannst einmitt vanta eitthvað til að jafna út hlutfallið,“ segir Saga.

„Sífellt fleiri eru farnir að huga að andlegu heilsunni og gera sér betur grein fyrir mikilvægi þess að hlúa að henni. Tengingin á milli andlegrar og líkamlegrar heilsu er ótvíræð og samfélagið allt er að vakna til vitundar um sannleiksgildi þess. Streita og kulnun hefur verið vinsælt umræðuefni lengi vel, enda mikil aukning á hvoru tveggja um allan heim. Því eru sérfræðingar farnir að vekja athygli á að vert sé að skoða hvað við erum að horfa og hlusta á því það hefur áhrif á líðan og upplifun okkar á umhverfinu.’’ segir Saga.

Ljósmynd/Dukagjin Idrizi

Framtíðarsýn Góðra frétta
„Við viljum öðlast sama vægi og hinir almennu fréttamiðlar og koma þannig jafnvægi á stöðuna,’’ segir Bjarki og bætir við: „Framtíðin er ótrúlega björt ef komandi kynslóðir fá að alast upp við að heyra af því hvað heimurinn sem þau búa í er í raun fallegur staður og hvað það er margt gott að gerast.

Ég tel það sérstaklega mikilvægt á þessum tímum þar sem tæknin sér til þess að við erum að fá allt beint í æð allan sólahringinn. Oftast fær það neikvæða mesta sviðsljósið. Við Saga teljum það einfaldlega vera siðferðislega skyldu að leggja okkar af mörkum og hjálpa samfélaginu að komast í jafnvægi á þessu sviði. Í raun er heimurinn okkar stórkostlegur staður til að búa á og við viljum sýna samfélaginu okkar fram á þá staðreynd.“ segir Bjarki.