Athafnasöm ungskáld stíga fram

Jana Björg Þorvaldsdóttir, ljóðskáld og söngkona. Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

Jana Björg Þorvaldsdóttir er 18 ára gamalt ljóðskáld og söngkona sem hefur verið að halda ljóðakvöld fyrir ungskáld síðan í mars 2019. Hugmyndin kom til mánuði áður þegar Jana ökklabrotnaði eftir að hafa runnið í hálku. Ég var ökklabrotin. Ég hafði ekkert að gera. Ég gat ekki mætt á æfingar því það gat enginn skutlað mér. Það var allt leiðinlegt, allt flókið, allt erfitt. Ég lenti líka í fyrstu ástarsorginni minni svo að þetta var hádramatískur tími, segir Jana en hún byrjaði að skrifa fyrsta ár sitt í menntaskóla og gaf út fyrstu ljóðabók sína, Varúð hálka, í desember 2018.

Fyrsta ljóðakvöldið á Eiðistorgi
Henni tókst semsagt illa að gæta varúðar og rann og ökklabrotnaði tveimur mánuðum síðar. Hún samsinnir þó að eitthvað gott hafi komið út úr því að sitja aðgerðalaus heima hjá sér. 

Ég fann fáa viðburði þar sem ungskáld voru að koma fram og lesa. Það voru nokkrir en mér fannst vera lítið í gangi sem ég gat tekið þátt í. Og þá var augljóst svar við því að halda þau sjálf.” Jana fékk þrjár vinkonur sínar til að hjálpa sér að setja allt upp og á fyrsta kvöldinu á Eiðistorgi komu fram tíu ljóðskáld. 

„Þetta heppnaðist ótrúlega vel,” segir Jana. Ég hélt eitt eða tvö ljóðakvöld í viðbót á Eiðistorgi, eitt í Flæði, eitt á Kaffi Laugalæk og síðasta ljóðakvöldið var haldið á Loft Hostel í desember 2019. Eftir það blandaðist þetta saman við listahópinn Post-dreifing og upp úr því spruttu ljóðakvöld sem bera nafnið Hrækjandi og eru haldin í Andrými. Okkur tókst að halda tvö áður en COVID-19 faraldurinn skall á. Við erum að vinna í því að koma þessu aftur af stað.

Jana Björg Þorvaldsdóttir, ljóðskáld og söngkona. Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

Ný og sjálfstæð bókaútgáfa
Jana og Karitas M. Bjarkadóttir vinkona hennar (sem er einnig ljóðskáld), eru líka að vinna í því að koma á fót sjálfstæðri bókaútgáfu, ásamt því að halda ritsmiðjur. Tilgangurinn með þessari sjálfstæðu bókaútgáfu verður að veita fólki tólin til að gefa út bækur sínar sjálft, í stað þess að fara hefðbundnu leiðina og gefa út hjá forlagi, þó að sá möguleiki sé auðvitað til staðar. En við munum gefa þeim sem vilja plagg með öllum upplýsingum um hvern á að hafa samband við til að gefa út bók; uppsetjara, grafíska hönnuði, prentsmiðjur og svo framvegis, ásamt lista af öllum helstu forlögum á Íslandi.

Jana segir að ritsmiðjurnar muni ganga út á samtöl, miðlun á reynslu og uppbyggilegri gagnrýni, þar sem enginn er undanþeginn. Hún segir sérstaklega mikilvægt fyrir ungskáld að vinna með ritstjóra og vera opin fyrir gagnrýni. Það er gríðarlega mikilvægt ferli, að fá fólk til að lesa yfir, gefa gagnrýni, taka við gagnrýni. Ég hef alltaf verið þrjósk og með mikla fullkomnunaráráttu, mér fannst því erfitt að taka við gagnrýni fyrst.

Þrátt fyrir að vera aðeins 20 og 18 ára gamlar hafa Karitas og Jana gefið út samtals sex bækur, Karitas fjórar og Jana tvær. Jana fékk Karitas til að ritstýra bókum sínum og báðar nýttu sér Háskólaprent til að prenta bækurnar sem Jana segir að henti vel fyrir minni upplög. Þau bjóða upp á persónulega þjónustu og eru hjálpfús, segir hún. Nú verður stefnan að hjálpa ungum og efnilegum höfundum að bæta hæfni sína og gefa út verk sín sjálf.