Alzheimerþorp sem býður upp á bjór og bingó

Ljósmynd/BusinessInsider

Alzheimer-sjúkdómur er hræðilegur sjúkdómur sem er bæði félagslega og læknisfræðilega erfiður viðureignar. Brautryðjandi þorp að nafni De Hogeweyk í Weesp í Hollandi tekur hinsvegar utan um þennan viðkvæma hóp með því að búa til öruggt, lokað þorp þar sem íbúar geta flakkað frjálslega og lifað eðlilegu lífi.

Þorpið er sérsniðið búsetuumhverfi fyrir aldrað fólk með heilabilun og þar er lögð áhersla á hlýlegt og notalegt umhverfi. Þorpinu hefur verið líkt við sögusvið kvikmyndarinnar The Truman Show þar sem umönnunaraðilar, læknar og hjúkrunarfræðingar vinna allan sólarhringinn við að fylgjast með íbúum og veita stöðuga sólarhrings umönnun.

De Hogeweyk í Hollandi. Ljósmynd/BusinessInsider

Í þorpinu er allt sem þarf og meira til – matvöruverslun, stór garður, veitingastaðir, bar og leikhús. Fjöldi heimila eru 23 og þau hýsa 152 íbúa sem þjást af heilabilun. Þorpið, sem hannað var af arkitektastofunni Molenaar & Bol & VanDillen, opnaði árið 2009. Það kostaði hollensk stjórnvöld í kringum 27 milljarða að byggja þorpið og 247 milljónir til viðbótar sem komu sem framlög frá samtökum sveitarfélaga. Kostnaður fyrir einn íbúa er um 824 þúsund á mánuði.

Umönnunaraðilar eru á vakt allan sólarhringinn og íbúar njóta þessvegna frelsis til að ganga úti, versla, horfa á kvikvmynd, heimsækja vini eða einfaldlega slaka á, án þess að vera að hættu komin. Að mati aðstandenda og íbúa þorpsins eru nákvæmlega þessi lífskjör sem þau telja ómetanleg, lífskjör sem íbúar Den Hogeweyk hefðu annars ekki kost á.