Rafíþróttirnar vinsælar hjá ungu fólki

Ljósmynd/Aðsend

Hjá Rafíþróttadeild Fylkis býðst börnum og unglingum tækifæri til að þjálfa sig í spilun tölvuleikja með aðstoð reyndra þjálfara.

Skipulagt íþrótta- og tómstundastarf barna og unglinga hér á landi hefur vaxið síðustu ár og fjölbreytnin orðin mun meiri en hún var. Eitt af því sem börn geta æft í dag kallast Rafíþróttir. Eins og fram kemur á vef Rafíþróttasamtaka Íslands var fyrsta skráða rafíþróttamótið (e. esport competition) haldið í Stanford háskóla í Bandaríkjunum árið 1972. Nú, 47 árum síðar hafa rafíþróttir þróast yfir í stóran iðnað sem nær um allan heim og skapar störf fyrir þúsundir einstaklinga. Heimsfrægir atvinnumenn keppa í liðum fyrir framan tugþúsundir áhorfenda og milljónir fleiri fylgjast með í beinni útsendingu. Vinsælustu rafíþróttaleikir nú til dags eru strategískir fjölspilunarleikir sem flestir eru spilaðir í liðum í gegnum internetið.

Fyrir líkama og sál
Rafíþróttadeild Fylkis býður upp á hefðbundnar æfingar þar sem hver hópur æfir tvisvar í viku. Hver æfing stendur yfir í eina og hálfa klukkustund og skiptist þannig upp að fyrsti hálftíminn fer í hreyfingu, upphitun og andlegan undirbúning. Klukkutíminn eftir það fer í að spila tölvuleikina. 

„Það er alveg þekkt dæmi að það taki á taugarnar að spila tölvuleiki,“ segir Bjarki Már Sigurðsson yfirþjálfari Rafíþróttadeildar Fylkis. „Þess vegna leggjum við áherslu á andlega undirbúninginn. Það að vera með rétt hugarfar er ótrúlega mikilvægur hluti af þessu. Þetta snýst allt um að hafa gaman. Þetta er auðvitað bara leikur en krakkarnir eru að sjálfsögðu með keppnisskap. Svo okkar hlutverk er að kenna þeim á það. 

Við finnum út hvað gerðist og hvað við getum gert til að læra af því þannig að við séum fær um að takast enn betur á við það næst. Að sama skapi er hreyfingin mikilvæg og að þau læri hvað það er mikilvægt að standa upp frá tölvunni og hreyfa sig svo þau verði ekki stíf í bakinu. Við erum í raun með þessu starfi að taka út allt það neikvæða sem fólk tengir oft við tölvuleiki.“

Bjarki bendir einnig á að íslenska hugtakið rafíþrótt sé dálítið aðskilt enska heitinu esport. Á Íslandi er hugtakið tengt jákvæðri og heilbrigðri iðkun á tölvuleikjum. „Rafíþróttir eru jákvæðar fyrir heilsuna og þar skipar hreyfingin og félagslegi hlutinn stóran sess“ segir Bjarki.

Bjarki Már Sigurðsson er yfirþjálfari Rafíþróttadeildar Fylkis. Ljósmynd/Aðsend frá Rafíþróttadeild Fylkis

Góð samvinna mikilvæg til að sigra
Æfingar hjá Rafíþróttafélagi Fylkis hófust á vorönn þar sem fjórir leikir voru í boði. Um fimmtíu krakkar mættu í hverri viku og annar eins fjöldi sótti sumarnámskeiðin sem félagið stendur fyrir. Bjarki segir að Rafíþróttafélag Fylkis sé frábær staður fyrir krakka sem hafa ekki fundið sig annars staðar. „Það eru ekki allir sem passa inn í þessar hefðbundnu íþróttir. En núna er loksins kominn vettvangur fyrir þau sem hafa bullandi áhuga á þessu. Það eru rosalega margir krakkar á Íslandi að spila tölvuleiki og þegar þeir koma saman á æfingum myndast strax tenging. Það er alveg magnað að fylgjast með því hvað það er fljótt að gerast þegar krakkarnir hafa þetta sameiginlega áhugamál sem þeir geta talað endalaust um. Sum börn sem voru áður félagslega einangruð eru að blómstra í starfinu hjá okkur. Rafíþróttir hafa líka ýmsar aðrar jákvæðar hliðar þegar kemur að félagslegum samskiptum. Þau læra mikilvægi góðrar samvinnu og samskipta við aðra liðsmenn. Það gagnast liðinu þegar samskiptin eru góð, þá eru sigurlíkurnar meiri.“

Keppnissenan orðin stór erlendis
Það er takmarkað hvað hægt er að halda af keppnismótum á Íslandi vegna fjölda deilda enn sem komið er. Hins vegar er gífurlega margt í boði erlendis fyrir fullorðna leikmenn. „Það er ótrúlegt hvað keppnissenan er orðin stór úti í heimi. Fólk áttar sig kannski ekki alveg á því. Hún er búin að stækka svo hratt á undanförnum árum. Þetta er ekkert öðruvísi en að vera bara atvinnumaður í fótbolta, körfubolta eða í raun hverju sem er. Ef þú ert á hæsta stigi geturðu lifað á því að spila einhvern tiltekinn leik og keppa á mótum og færð vel launað fyrir. Það er bara orðið þannig í dag. Fyrir utan þau fjölmörgu tækifæri sem eru til staðar í öðrum störfum innan tölvuleikjabransans,“ segir Bjarki glaður í bragði.

Spennandi starf framundan í vetur
„Sumarnámskeiðin voru mjög vel heppnuð, þar sem við höfðum æfingar í námskeiðaformi og kynntum krakkana fyrir starfinu. Í haust byrjuðum við með næstu æfingaönn þar sem hefðbundnar æfingar byrjuðu og þá vorum við með ýmsa leiki sem þau gátu æft. Á vorönninni vorum við með Overwatch, Counterstrike, Leage of legends og Fortnite. Þeir eru allir hjá okkur ennþá og mögulega einhverjir nýir til viðbótar. Það er búið að vera alveg rosalega gaman hjá okkur. Bara að fá að taka þátt í þessu með krökkunum hefur verið alveg fáránlega skemmtilegt.“ Aðspurður að því hvort nýir krakkar geti komið og æft í vetur segir Bjarki það sjálfsagt mál. 

„Við erum alltaf rosa spennt að fá krakka til okkar að prófa. Við hvetjum krakka til að koma og prófa og sjá hvernig þeim líst á. Það eru margir búnir að finna sig svo vel í þessu hjá okkur. Þetta er framtíðin.“ Skráning fer fram á vef Fylkis og einnig er hægt að finna Rafíþróttadeild Fylkis á Facebook.