Ungt fólk er tilbúið í naflaskoðun

Steinunn. Ljósmynd/Aðsend

Blaðamaður Góðra frétta hafði samband við Steinunni Önnu Radha en hún kom sér snemma fyrir í fremstu víglínu í baráttu litaðra á Íslandi og hefur veitt fjöldamörgum innblástur til þess að líta í eigin barm og gera betur en áður. Við spurðum Steinunni að því hvað henni fyndist jákvætt við byltinguna og hvar hún telji helstu áherslurnar þurfa að liggja.

Steinunn Anna Radha
Black Lives Matter hreyfingin hefur varla farið framhjá neinum. Þó baráttan hafi verið erfið og þung, finnst mér standa upp úr hvað unga fólkið hefur verið tilbúið til að líta í eigin barm og gera betur. Á sama tíma og umræðan um baráttu litaðra er mér rosalega sár og grimm er þetta á sama tíma tækifærið sem við úr öðrum menningarheimum en hvítra höfum beðið eftir. Það að geta tjáð okkur á einlægan hátt, leyft okkur að viðurkenna eigin sársauka og standa berskjaldaðri sem aldrei fyrr frammi fyrir honum á meðan aðrir hlusta. Það er eitthvað sem ég persónulega hef ekki upplifað af svo miklum krafti áður. 

Þegar ég byrjaði að tjá mig um rasisma bjóst ég aldrei við þeim jákvæðu viðbrögðum sem ég hef fengið og hversu langt ég hef fengið að komast með að skoða rasisma á öllum sviðum samfélagsins. Menningarnám, atvinnutækifæri, hversdaglega rasíska brandara og umhverfisrasisma (e. environmental racism), ásamt rasisma innan heilbrigðiskerfisins og öðru. Þó að lögreglan sé ekki að ganga jafn langt og í Bandaríkjunum megum við ekki gleyma að líf okkar skiptir líka máli á meðan við erum á lífi. Þess vegna er umræða um rasisma mikilvæg þó hún beinist ekki eingöngu að lögregluofbeldi. 

Flestir skilja það en á sama tíma er fólk sem skilur það ekki nógu vel, reynir að fara upp á móti manni og er þá rasískt á sama tíma. Ég tel það mikilvæg og ekki síðri viðbrögð en þau jákvæðu því þau minna okkur á hversu rótgróinn og kerfisbundinn rasismi er, um leið og það er þrýst á mig að verða ákveðnari og standa með eigin upplifun og tilfinningum. Mótlætið minnir mig á að það verður alltaf einhver á móti þér en að þú eigir samt rétt á að standa á þínu. 

Á þessum mánuðum sem ég hef verið að tjá mig hefur sprottið upp samræðuvettvangur fyrir litað fólk á Íslandi. Það er tengslanet sem hefði mátt verða til fyrir löngu. Við erum samankomin, öll með reynslu af rasisma en sitthvora upplifunina, túlkunina og sjónarhornið á hin ýmsu mál. Það er dásamlegt að vera séð sem einstaklingur með skoðun en ekki ,,ein af þessum asísku eða lituðu.” Mér finnst þetta vera okkar tækifæri til þess að standa saman og svara öllum sem hafa kúgað okkur hispusarslaust í gegnum árin. Bekkjarsystkinunum sem áreittu okkur miskunnarlaust, atvinnurekendum sem réðu okkur ekki vegna melatóníns, foreldrum sem vissu ekki betur og rasísku dónunum sem við mætum daglega út í búð. 

Ég hef tekið eftir því hvernig fólk í kring um mig er meðvitaðra um eigin neysluhegðun, hvernig hún viðheldur rasisma svokallaðrar ,,fast fashion” tísku og hvernig enginn kemst af án fjölmenningar. Ég hef tekið ótal spjöll um rasisma og klám og náð til hvítra karlmanna. Mér sem litaðri konu finnst magnað að geta mætt öllum samfélagshópum með virðingu og samtali.

Við þurfum að vera óhrædd við að viðurkenna samfélagsgerðina sem við lifum í, að goggunarröðin sé þessi: Hvítir karlmenn, hvítar konur, litaðir karlmenn og litaðar konur. Ef við viðurkennum þetta gengur allt betur og það er einmitt það sem mér finnst fólk geta gert. Ég heyrði hvítan vin minn standa upp gegn rasískum ummælum um daginn og það vakti von, hann áttaði sig á að hann þyrfti að nýta sér goggunarröð samfélagsins til þess að berjast fyrir aðra. Annað hvort komumst við öll að markinu eða enginn kemst neitt. Munum það og berjumst áfram.

Baráttukveðjur,
Steinunn Anna Radha