Ný bók breytir læknafræðinni

Malone Mukwende. Ljósmynd/St. George's

Malone Mukwende, nemi á öðru ári við St. George háskólann í London ákvað að skrifa handbókina Að brúa bilið (e. Mind the Gap) þegar hann tók eftir því að kennsla í læknisfræði tekur ekki tillit til fólks með dökkan hörundslit. Hjúkrunarfræðingurinn Adama Ndure segir bókina mikilvæga fyrir íslenska heilbrigðisgeirann.

Eins og kemur fram í viðtali við Malone á heimasíðu St. George háskólans er hann nemandi á öðru ári í læknisfræði í London. Hann segist hafa upplifað sig einangraðan í náminu vegna skorts á kennslu um hvernig sjúkdómseinkenni birtast hjá svörtu og hörundsdökku fólki. St. George háskólinn féllst á að þetta væri brýnt málefni og mikilvægur liður í afnýlenduvæðingu námskráa.

Það að afnýlenduvæða námskrá er stefna sem háskólar í Bretlandi hafa tekið upp sem lið í fjölbreyttari náms- og kennsluháttum og sem á að endurspegla samfélagið og sögu Bretlands. Til að mynda voru einungis 25 svartar konur háskólaprófessorar á akademíska árinu 2016-2017 samanborið við 14.000 hvíta karlmenn.

Mind the Gap eftir Malone Mukwende. Ljósmynd/St. George’s

Klínísk einkenni birtast með mismunandi hætti hjá fólki eftir hörundslit
Í samstarfi við prófessora í St. George skrifaði Malone handbók sem vekur athygli á því hvernig klínísk einkenni birtast hjá fólki sem er dökkt á hörund. Handbókin undirstrikar einnig nauðsyn nákvæmrar málnotkunar þegar um er að ræða klínísk einkenni hörundsdökks fólks.

Malone útskýrir: „Tilgangurinn er að fræða nemendur og heilbrigðisstarfsfólk um mikilvægi þess að skilja að klínísk einkenni birtast með mismunandi hætti hjá fólki eftir hörundslit og í kennslubókum er að finna hlutdrægni sem hyllir hvítleika. Til dæmis eru Covid-19 fjölskyldur beðnar um að fylgjast með því hvort sjúklingar séu með fölar eða bláar varir. Slík lýsing hjálpar ekki hörundsdökku fólki. Við þurfum að fara að mennta fólk um mátt og nákvæmni í málnotkun þegar um sjúkdómseinkenni er að ræða.“

Öll fræði eigi að endurspegla raunverulega fjölbreytni samfélagsins
Handbókin sem heitir Að brúa bilið er í vinnslu og væntanleg á íslensku á komandi ári. Góðar fréttir heyrðu frá Adömu Ndure, sem er nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur frá Háskólanum á Akureyri, um þýðingu bæklingsins og mikilvægi hans fyrir heilbrigðisgeirann á Íslandi.

Adama Ndure, hjúkrunarfræðingur. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er mjög jákvætt og það skiptir miklu máli að handbókin fái meðbyr,“ segir Adama. „Þetta kemur í kjölfar Black Lives Matter hreyfingarinnar og við sjáum núna hvernig hlutirnir eru að breytast smám saman. Hreyfingin er farin að hafa áhrif innan læknavísinda sem er ákveðin viðurkenning og það er mikilvægt að við missum ekki dampinn. Þetta á eftir að hafa mikil áhrif fyrir hjúkrunarfræðina á Íslandi. Fólk er ekki allt hvítt eða í einhverjum ákveðnum kassa og það vantar að heilbrigðisgeirinn endurspegli það. Auðvitað eiga öll fræði að endurspegla raunverulega fjölbreytni samfélagsins. Það gladdi mig mikið að heyra um þetta framtak.“