Ungur og upprennandi listamaður

Óðinn Páll. Ljósmynd/Aðsend

Listamaður mánaðarins er enginn annar en Óðinn Páll Ríkarðsson. Í ljósi aðstæðna samfélagsins tókum við púlsinn á honum í gegnum netið, sem bróðurpartur landans ætti að kannast við nú þegar. Hann er einstaklega frumlegur og er margt til listanna lagt. 

Listaáhuginn byrjaði snemma
Óðinn Páll kemur beint úr miðju Vesturbæjarins og segist hafa alla tíð verið viðriðinn list, en móðuramma hans er myndhöggvari og móðir hans, Hildur Helga Sigurðardóttir, er vel þekkt útvarpskona.

„Ég heiti Óðinn Páll og er listamaður, ég ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur með stoppi í suður-London,“ en þaðan er faðir Óðins.
Listaáhuginn byrjaði snemma. Ég var mikið í kringum ömmu mína sem var myndhöggvari, að alast upp hjá henni að hluta til var eins og að búa á listasafni.

Það var þó ekki fyrr en 2007 sem ég byrjaði að spreyta mig sjálfur, þegar ég og félagar mínir úr Vesturbænum vörðum löngum stundum í að stara á graffiti veggi hjá loftkastalanum.“
Óðinn útskrifaðist sem stúdent úr Myndlistaskólanum (MIR) árið 2019.

Verk í vinnslu eftir Óðin Pál. Ljósmynd/Álfheiður Björk Bridde
Verk eftir Óðin Pál. Ljósmynd/Álfheiður Björk Bridde

Fann sinn stíl
Óðinn segist hafa byrjað á að graffa og fært sig svo yfir í hefðbundna list sem hann stundar í dag, en götulistin á alltaf hjarta hans og það er aldrei langt í pennann. „Ég byrjaði að mála veggi í kringum 2007, en ætli  hafi ekki byrjað á einhverju kroti á undan því. Þegar ég fór í Myndlistaskólann 2017 færði ég mig yfir á striga en hitt verður alltaf til staðar. Ég hef gaman að því að gera skarpar línur í grípandi litum, ég myndi mögulega kalla þetta leturlist (letterart) þrátt fyrir að fáir bókstafir finnast í þessum verkum sem ég er að gera núna.“ Stíll Óðins er í stöðugri þróun. Hann fær að spreyta sig á listinni á vinnustofu sinni við Ingólfsstræti, sem hann leigir ásamt öðrum listamönnum.
„Ég bý til mitt eigið ólæsilega letur sem mætti frekar kalla munstur. Stíllinn minn hefur mikið breyst og má alveg skipta í tvennt, eftir því sem ég tek fyrir hverju sinni. Stíllinn er samt ennþá í þróun, svo fylgstu með.“

Á meðfylgjandi myndum má sjá það sem helst er á döfinni hjá Óðni, þar má sjá áður óséðan vinkil á mjög skemmtilegri tækni sem hann tæklar svona líka vel. Hann er iðinn við að skoða og læra nýjar aðferðir og hefur það skinið í gegn í nýjum stíl hans.
„Síðustu misseri hef ég mikið verið að skoða arabíska skrautskrift.“

Arabísk skrautskrift hefur verið innblástur í verkum Óðins. Ljósmynd/Álfheiður Björk Bridde

Stefnir á grafík
Óðinn Páll segist aðspurður um framtíðarplön eiga stóra drauma.
„Ég stefni á að læra grafíska hönnun í Mílanó eða hérna heima í LHÍ, ég á eftir að gera upp hug minn.
Það er dýrt að fara út en örugglega skemmtileg lífsreynsla, hér heima aftur á móti get ég haldið áfram að byggja upp tengslanet og verið í vinnustofunni minni á Ingólfsstræti. Svo það eru kostir og gallar við báða valmöguleika.“

Verk eftir Óðin Pál. Ljósmynd/Álfheiður Björk Bridde
Verk eftir Óðin Pál. Ljósmynd/Álfheiður Björk Bridde
Verk eftir Óðin Pál. Ljósmynd/Álfheiður Björk Bridde

Uppáhalds penni: Krink pennar hafa alltaf verið í uppáhaldi, kannski vegna þess að það er ekki hægt að fá þá á Íslandi.

Uppáhalds listamaður : RTS, gamall íslenskur graffhópur, MSK, graffhópur í Bandaríkjunum, Pokras lampas , rússneskur leturlistamaður, og hljómsveitin Regn er í miklu uppáhaldi þessa dagana.

Staðalbúnaður: Úðabrúsi, Posca pennar og kaffibolli.

Uppáhaldsstaður: Hólavallagarður, Litaland og Ingólfsstræti 6.

Hér má einnig finna verk eftir Óðinn.