Lífið eftir Klausturgate – Bára stendur sterkari sem aldrei fyrr

Hrafna Jóna Ágústsdóttir, eiginkona Báru, ásamt Báru á útskriftarsýningu Hröfnu. Ljósmynd/Aðsend

Bára Halldórsdóttir kom í viðtal til okkar og talaði meðal annars um sýningu sína á Fringe festival í sumar og merkingu þess að vera stoltur öryrki.

„Ég er 44 ára móðir, amma, eiginkona, hundaeigandi og kattaeigandi.“ Svo hljóðar opnunarsetning Báru Halldórsdóttur á sýningu hennar This is not a show eða Þetta er ekki sýning á Reykjavík Fringe Festival sem var sýnd í byrjun júlí. Bára sem er fötluð, hinsegin kona greindist ung með Behcet’s sjúkdóminn sem er mjög sjaldgæfur og er í dag 100% öryrki. Hún varð landsfræg árið 2018 þegar hún hljóðritaði þingmenn Miðflokks tala niðrandi um samstarfskonur, fatlaða og aðra minnihlutahópa á Klaustur bar. Greinahöfundur ræddi við Báru um innblástur hennar að sýningunni og um lífið eftir Klausturgate málið svokallaða.

Bára Halldórsdóttir og barnabarn. Ljósmynd/Aðsend

Þú segir í sýningunni þinni að þú hafir viljað halda ljósmyndasýningu og jafnvel sýna heimildarþátt, en útkoman varð nokkurskonar mono-drama. Hvað olli því að þú ákvaðst að fara í aðra átt?

Ég hafði ekki náð að klára það sem ég vildi gera fyrir sýninguna. Það poppaði upp í hausinn minn hversu oft fólk sem er langveikt byrjar á verkefnum en hendir þeim svo frá sér, af því tíminn var ekki nægur. Svo í staðinn fyrir að henda verkefninu ákvað ég að sýna það óklárað. Úr varð ótrúlega þýðingarmikil og sterk sýning. Pælingin var sú að hálfunnin vinna er þess virði að skoða, að sýna hráan ófullkomleikann. Ég held það sé mjög frelsandi fyrir sumt fólk. Kannski eins og þegar maður var lítill, lagðist í óhreinan móann og uppgvötvaði eitthvað um sjálfan sig.

Í sýningunni  talar þú mikið um líf þitt sem öryrki. Geturðu sagt að Betchcet’s sjúkdómurinn hafi haft einhver jákvæð áhrif á líf þitt?

„Fyrsta sem sjúkdómurinn gerði var að neyða mig til að hægja á mér. Ég áttaði mig allt í einu á listamannspartinum af sjálfri mér og það hefur líka dregið fram í mér meiri staðfestu í aktívismanum mínum. Það að vera langveikur neyðir þig til að velja í hvað þú vilt eyða orkunni þinni, sem er mjög sterkt.“

Bara hress. Ljósmynd/Aðsend

Þegar þú uppljóstraðir um Klausturgate í fjölmiðlum þá komstu ekki strax fram undir nafni. Heldurðu að félagsleg staða þín hafi haft áhrif á það að þú ákvaðst svo að stíga fram?

„Já, algjörlega. Ég fór á mótmælin 2018 vegna Klausturgate þegar enginn vissi hver ég var. Það var fullt af fólki að mótmæla og sérstaklega konur, fatlaðir og fólk sem tilheyrir Samtökunum ‘78. Svo slær það mig. Þær sem eru að mótmæla eru hinsegin, fatlaðar konur, sem er ég. Eins og með þingmennina. Þeir sáu mig ekki af því ég var einhver kona út í horni. Það var ástæðan fyrir því að ég kom fram. Dagana eftir á fékk ég þrjú eða fjögur skilaboð frá fólki sem sagðist nú finna til stolts yfir því að vera öryrkjar. Ég bara táraðist, mér fannst það yndislegt.“

Umræddir þingmenn sökuðu þig um að vera háleynilegur njósnari í svörtum fötum: Hvaða Hollywood leikara myndirðu velja til að leika þig í endurgerð á atburðunum sem áttu sér stað í kjölfar Klausturgate?

Bára hlær stórkostlega og íhugar það í smástund áður en hún svarar: „Ég stórefast um að það verði búin til bíómynd um mig. En… mér hefur oft verið líkt við Drew Barrymore og hún er skrítin. Ég fíla hana og ég held ég myndi velja hana. Ég held hún geti verið svolítið skrítin eins og ég.“