Gróðursetja þúsundir trjáplantna í Þorskafirði

Erfan Smári (fyrir miðju) og félagar. Ljósmynd/Aðsend

Ár hvert leggja sjálfboðaliðar leið sína á Skóga í Þorskafirði til að planta trjám og eltast við flækingskindur. Góðar fréttir ræddu við Erfan Smára (8 ára), efnilegan skógræktarmann og sjálfboðaliða.

Við rætur Vaðalfjalla í Þorskafirði liggur jörðin Skógar. Sú jörð er sögufrægur fæðingarstaður þjóðarskáldsins Matthíasar Jochumssonar. Síðar keypti bróðursonur Matthíasar, rithöfundurinn og ljóðskáldið Jochum Eggertsson jörðina og hóf þar skógrækt. Í dag er hún eign Bahá’í samfélagsins sem heldur uppi verkefninu með sjálfboðastarfi. Bahái’í samfélagið eru trúarbrögð upprunnin frá Íran en finnast í dag um heim allan. Bahá’íar leggja mikla áherslu á samfélagsuppbyggingu og kenna meðal annars jafnrétti kynjanna, mikilvægi þess að útrýma fátækt og öfga ríkidæmi, samhljóm vísinda og trúarbragða og einingu allra trúarbragða.

Jochum Eggertsson, sem gekk undir skáldanafninu Skuggi, var meðal hinna fyrstu til að hefja skógrækt á Íslandi. Það var árið 1959. Í þá daga var skógrækt fremur lítils metin, sérstaklega af bændum, og þá einkum vegna þess að skógræktarfólk var mjög á móti lausagöngu kinda, sem éta nýgræðinga og smáar trjáplöntur. 

Jochum var einna fyrstur íslendinga til að gerast meðlimur Bahá’í trúarinnar og arfleiddi trúarsamfélagið að Skógum. Síðan hefur Bahá’í samfélagið viðhaldið skógræktarástríðu hans og erfiðisvinnu með sjálfboðavinnu og í dag eru Skógar með stærri skógræktarverkefnum á Íslandi. Ár hvert leita Bahá’íar og góðvinir þeirra til Vestfjarða að gróðursetja tré, setja upp girðingar og smala flækingskindum af svæðinu til að vernda nýgræðinga.

Erfan Smári klár í verkið. Ljósmynd/Aðsend

Góðar fréttir fylgdust með sumarstarfinu og ræddu við Erfan Smára (8 ára) sem aðstoðaði við að planta trjám nú í júlí síðastliðinn. Erfan Smári hafði eftirfarandi um reynslu sína að segja.

Segðu mér aðeins frá starfi þínu við trjáplöntun á Skógum?
„Við settum niður trjáplöntur af því það er gott fyrir jörðina. Ég fékk að fara á sexhjól og hjálpaði til við að bera mat [áburð] á landið.“

Finnst þér mikilvægt að við hugsum vel um umhverfið?
„Já. Mér finnst ekki gott að fólk reyki. Fólk á að hætta að reykja því það getur dáið.“

Það er alltaf mjög mikilvægt að nærast vel. Ljósmynd/Aðsend

Hvað kom til að þú ákvaðst að fara að gróðursetja tré?
„Það er bara gaman. Tréin lífga jörðina við og það verður meira líf í jörðinni ef maður er góður við hana. Ef allir í heiminum rusla til verða fiskarnir lasnir og fullir af plasti. Við verðum að passa upp á jörðina og endurnýta ruslið, búa til eitthvað nýtt úr því. Við þurfum bara að borða meira grænmeti og hætta að hugsa um drasl og kjöt. Verðum að halda áfram að rækta grænmeti…

Við þurfum að nota tannbursta, endurnýta svona tré tannbursta, það er gott fyrir jörðin, og borða meira grænmeti, bara búa til baunasúpur og getum líka gert súpur með grænmeti og eggjum. Við getum líka notað egg… þurfum bara setja eggin í ofninn og setja eggjaskurnina ofan í jörðina [moltugerð].“

Hvar lærir þú að hugsa um jörðina?
Ég veit það ekki. En allt svona hýði úr ávöxtum er mjög gott fyrir hana.”