Málmtré getur hreinsað andrúmsloftið á við 368 náttúruleg tré

BioUrban tréð. Ljósmynd/BiomiTech

Í Mexíkó var hópur verkfræðinga sem vildi finna lausn við loftmengun og hannaði gervitré sem sýgur koltvísýring úr loftinu og skilar hreinu lofti aftur út í andrúmsloftið. Fyrirtækið BioMitech var stofnað árið 2016 og hefur sett upp þrjú tré; eitt í Puebla, Mexíkó, annað í Kólumbíu og það þriðja í Panama. Verkefnið fékk nafnið BioUrban.

BioUrban tréð er með kerfi sem hermir eftir náttúrulegum trjám með tæknilegum eiginleikum. Tréð er úr málmi og grípur loftmengun með hjálp örþörunga sem ljósstillífa 365 daga ársins og skila þannig hreinu súrefni út í andrúmsloftið.

Hvert tré er 4,2 metrar á hæð, tæplega 3 metrar á breidd og vegur um eitt tonn. Það hreinsar jafn mikið loft og hektari af trjám sem samsvarar því sem 2.980 einstaklingar anda inn á hverjum degi. Samkvæmt BioMitech getur málmtréð hreinsað á við 368 náttúruleg tré.

Þrátt fyrir það koma þau ekki í stað náttúrulegra trjáa heldur eru þau hugsuð sem viðbót. Þessi lausn er hugsuð fyrir þéttbýli þar sem vegfarendur, samgöngur, bíla- og hjólaumferð er sem mest. Fyrsta tréð var sett upp í Puebla, Mexíkó og kostnaðurinn við það er um sjö milljónir íslenskra króna.

Mexíkó er eitt af þrem löndum sem sett hafa af stað verkefni til að berjast á móti loftslagsbreytingum. Verkefnin hafa nú þegar vakið mikla athygli og munu hafa gríðarleg áhrif til framtíðar. Hin tvö eru á vegum Indlands og Indónesíu.