Frú Ragnheiður: „Þetta er sterkasta fólk landsins”

Svala Jóhannesdóttir, fyrrverandi verkefnastýra Frú Ragnheiðar. Ljósmynd/Aðsend

Þjónusta Frú Ragnheiðar inniheldur fyrst og fremst heilbrigðisþjónustu, nálaskiptaþjónustu, en einnig er boðið upp á nauðsynjahluti eins og fæði, hlý föt og útilegubúnað fyrir skjólstæðinga. 

Starfsemi Frú Ragnheiðar fer fram á skrifstofu Rauða Krossins og í sérinnréttuðum sendiferðabíl sem keyrir um höfuðborgarsvæðið sex kvöld í viku (alla daga nema laugardaga) og hittir fólk sem óskar eftir þjónustu. 

Frú Ragnheiður hóf starfsemi sína árið 2009, og hefur starfsemi verkefnisins aukist töluvert á undanförnum fimm árum.

Svala Jóhannesdóttir, sem var verkefnastýra Frú Ragnheiðar frá árunum 2014-2019 lýsir verkefninu sem lítilli færanlegri heilsugæslu. Þetta er alvöru nærþjónusta. Við erum búin að sérinnrétta stóran sendiferðabíl í litla heilsugæslu þar sem margskonar þjónusta er í boði fyrir markhópinn.”

Færanleg lítil heilsugæsla. Ljósmynd/Aðsend

Blaðamaður Góðra frétta fór og heimsótti Svölu og spjallaði við hana um hvað verkefnið felur í sér. 

Getur þú sagt okkur aðeins frá hvað skaðaminnkun felur í sér?
Skaðaminnkandi hugmyndafræði er í raun mannúðleg nálgun á vímuefnavanda og vímuefnanotkun. Aðal markmið skaðaminnkunar er að aðstoða fólk við að halda lífi. Skaðaminnkun leggur áherslu á að draga úr þeirri áhættu og þeim skaða sem getur fylgt vímuefnanotkun frekar en að reyna að koma í veg fyrir sjálfa notkunina. Rannsóknir hafa sýnt að skaðaminnkandi inngrip ná að draga úr líkum á ofskömmtunum á vímuefnum og dauðsföllum. Einnig lágmarka inngripin sýkingar og HIV- og lifrarbólgu smit. Í skaðaminnkun erum við jafnframt að reyna að auka andlega- og líkamlega heilsu fólks og almenn lífsgæði.

Svala Jóhannesdóttir, fyrrverandi verkefnastýra Frú Ragnheiðar. Ljósmynd/Aðsend

Skaðaminnkandi inngrip eru gagnreynd og eru ekki í samkeppni við vímuefnameðferðir eða bindindismódelið, heldur er skaðaminnkun fyrst og fremst mikilvæg viðbót í þjónustu og stuðning við fólk sem glímir við vímuefnavanda. Við leggjum áherslu á að mæta fólki þar sem það er statt hverju sinni og út frá því reynum við að finna út úr því hvað einstaklingurinn þarf til að geta lifað þennan kafla af og hvað hann treystir sér til að gera til að taka lítil skref í átt að jákvæðum breytingum. 

Annað sem er mikilvægt er að í skaðaminnkandi hugmyndafræði er lögð mikil áhersla á virðingu og mannréttindi. Við berum mikla virðingu fyrir fólkinu sem við hittum og höfum skilning á þeirra aðstæðum. Það er ástæða fyrir því að fólk þróar með sér vímuefnavanda og lendir á þessum stað í lífinu. Við hjá Frú Ragnheiði dæmum ekki fólk, né beitum forræðishyggju. Margir sem leita til okkar í Frú Ragnheiði eiga oft mjög þunga og erfiða áfallasögu að baki og það að nota vímuefni er ákveðið bjargráð og sjálfsmeðhöndlun til þess að lifa af þann sársauka.”

Frú Ragnheiður, færanleg lítil heilsugæsla. Ljósmynd/Aðsend

Þjónusta Frú Ragnheiðar er eins og áður sagði margbreytileg. Um 62% af skjólstæðingum Frú Ragnheiðar hafa nýtt sér nálaskiptaþjónustuna, sálrænn stuðningur er veittur í um 29% heimsókna, 82% hafa leitað til Frú Ragnheiðar til að fá mat og drykki og 15% skjólstæðinga nýta þjónustuna til að fá hlýjan fatnað og útilegudót.

Frú Ragnheiður, færanleg lítil heilsugæsla. Ljósmynd/Aðsend

Getur þú talið upp þær tegundir þjónustu sem Frú Ragnheiður veitir sínum skjólstæðingum?
Fyrst og fremst er það heilbrigðisþjónusta. Það er alltaf hjúkrunarfræðingur á vakt sem sinnir henni. Í heilbrigðisþjónustunni sinnum við meðal annars sáraskiptum. Við erum með sýklalyfjameðferð þannig að einstaklingar geta komið til okkar og fengið meðferð við sýkingum í töfluformi og allar endurkomur fara fram í bílnum.”

Í fyrra voru um 80 sýklalyfjameðferðir veittar í bíl Frú Ragnheiðar og bak við þær eru 62 einstaklingar. 

Í bílnum fer síðan fram almenn heilsufarsskoðun og heilsufarsráðgjöf. Við metum til dæmis æðaástand hjá fólki og aðstoðum fólk við að finna nýjar æðar. Það dregur mikið úr sýkingahættu að rótera æðum og dregur úr öramyndun í æðum,” segir Svala. 

Síðan erum við með nálaskiptaþjónustu og þá erum við með allan þann sprautubúnað sem fólk þarf til að lágmarka hættu á smiti og sýkingum. Einnig veitum við fólki leiðbeiningar um öruggari notkun til að draga úr líkum á ofskömmtunum og dauðsföllum, ásamt smitum og sýkingum. Jafnframt fær fólk nálabox hjá okkur og skilar þeim þegar þau eru orðin full. Við leggjum mikla áherslu á örugga förgun á notuðum sprautubúnaði. Með þessu erum við að koma í veg fyrir það að búnaðurinn verði eftir á götum borgarinnar eða settur í ruslið. Þetta er hluti af samfélagslegri skaðaminnkun. Við gefum fólki einnig hlý föt en 60-65% af fólki sem leitar til okkar er heimilislaust. Við erum líka með svefnpoka, tjalddýnur og tjöld. Núna yfir sumartímann er mikið verið að óska eftir svefnpokum og tjöldum. Einnig erum við með samlokur, banana og drykki. Það er mikil umhyggja í því að gefa fólki mat, enskjólstæðingar okkar eru oft svangir og þyrstir þegar þeir leita til okkar.”  

Svala bætir við að þjónustan í Frú Ragnheiði snúist einnig mikið um að veita sálrænan stuðning og að ná að skynja hvar fólk er statt andlega hverju sinni. Hún segir að ef skjólstæðingur mætir hress og kátur í bílinn, þá eru sjálfboðaliðar hressir og kátir með honum og hafa gaman.

Svala Jóhannesdóttir, fyrrverandi verkefnastýra Frú Ragnheiðar. Ljósmynd/Aðsend

Frú Ragnheiður á kvöldin
Á kvöldin fer öll starfsemi Frú Ragnheiðar fram í sérinnréttuðum sendiferðabíl. Frú Ragnheiður sinnir öllum sveitarfélögum á höfuðborgasvæðinu frá kl. 18:00 til sirka 23:00 öll kvöld vikunnar nema laugardagskvöld. Á hverri vakt eru þrír sjálfboðaliðar í bílnum: Bílstjóri, heilbrigðisstarfsmaður og almennur sjálfboðaliði. Einnig er alltaf læknir sem sinnir bakvakt. Í heildina starfa 100 sjálfboðaliðar hjá Frú Ragnheiði.

Þjónustan virkar þannig að skjólstæðingar hringja í okkur í síma 7887-123 eða hafa samband í gegnum Facebook síðu Frú Ragnheiðar, mæla sér mót við bílinn og vaktin keyrir svo til einstaklingana. Það skiptir rosalega miklu máli fyrir þennan jaðarsetta hóp að öll þjónustan komi til þeirra, að við veitum alvöru nærþjónustu. Fólk kemur í bílinn og fær alla þá þjónustu sem er í boði hjá okkur,” segir Svala.

Frú Ragnheiður á daginn
Á daginn fer þjónusta Frú Ragnheiðar mikið fram í gegnum síma og með hittingum við skjólstæðinga á vettvangi. Á dagtíma er aðallega verið að sinna bráðamálum og eftirfylgd með málum skjólstæðinga sem eru í engri eða lítilli þjónustu annarsstaðar, en það er helsti markhópur Frú Ragnheiðar.

Við skimum fyrir hvaða stuðning skjólstæðingar eru að fá annarsstaðar og við reynum að tengja fólk við þá þjónustu sem það á rétt á. Við erum að taka þennan týnda hóp af fólki og koma honum inn í félags- og heilbrigðiskerfið. Við erum að tengja fólk inn í félagsþjónustuna, inn í geðteymi og í stuðning hjá vettvangsteymi Reykjavíkurborgar,” útskýrir Svala.

Sumir segja að skaðaminnkandi hugmyndafræði ýti undir neyslu, hvað hefur þú að segja við því?
Ég skil að fólk haldi það. Skaðaminnkandi verkefni og inngrip hafa verið rannsökuð ýtarlega og það hefur sýnt sig að þau auka ekki núverandi vímuefnavanda í heiminum og ýta heldur ekki undir það að fólk fari frekar að nota vímuefni eða sprauta sig. Það sem skaðaminnkandi þjónusta gerir er að draga frekar úr hættulegri vímuefnanotkun og úr líkunum á að fólk deyi af völdum ofskömmtunar. Við sjáum það hér á landi að frá því Frú Ragnheiður byrjaði fyrir 10 árum síðan hefur hópurinn sem notar vímuefni í æð daglega ekki fjölgað miðað við höfðatölu, hópurinn stendur raun í stað. Það sem skaðaminnkandi verkefni gera er að veita fólki öruggt rými að leita í, þannig að þegar fólk vill aðstoð þá hefur það stað til að sækja hana.”  

Hvað finnst þér jákvæðast við að hafa verið verkefnastýra Frú Ragnheiðar?
Það er svo ótrúlega margt,’’ svarar Svala brosandi. Í fyrsta lagi þá er ótrúlega gefandi að vinna með fólki sem býr við þessar krefjandi aðstæður. Það að fá tækifæri til að vinna með jaðarsettum einstaklingum er mögnuð lífsreynsla. Skjólstæðingar okkar hafa einstakan hæfileika á að gera og græja og verða sér út um hluti eins og hreinlætisvörur, mat og drykki og eru snillingar í að búa til peninga. Þetta er mjög úrræðagóður hópur.” Svala segir ekki rétt að tala um þennan hóp sem aumingja” og segir að einstaklingar sem glíma við vímuefnavanda eða heimilisleysi eru andstæðan við að vera aumingjar. Þetta er sterkasta fólk landsins,” segir hún.

Svala Jóhannesdóttir, fyrrverandi verkefnastýra Frú Ragnheiðar. Ljósmynd/Aðsend

Jákvæðnin yfirstígur ljótleikann
Svala segir að þetta sé hópur með mikla gerendahæfni og magnaða lífsorku. Það að lifa í undirheimunum og að vera að glíma við heimilisleysi og vímuefnavanda krefst mikils. Þessi hópur þarf að kljást við ýmsa samfélagslega þröskulda og verður ítrekað fyrir áföllum, en það er einhver ótrúleg orka sem býr innra með fólkinu og lífsvilji til að standa alltaf upp og reyna aftur.” Svala lýsir þakklæti yfir traustinu og trúnaðinum sem skjólstæðingar hennar hafa sýnt henni.

Ég er bara svo snortin. Fólk spyr mig oft: Er þetta ekki hrikalegt starf? Jú, auðvitað er maður að sinna erfiðum málum og hitta fólk á ef til vill sínum versta stað í lífinu en á sama tíma fær maður að hitta einstaklinga sem hafa ótrúlega lífsorku og þau hafa kennt manni svo margt um lífið og samfélagið. Maður upplifir svo margt jákvætt í þessu starfi að það yfirtekur allan ljótleikann í því.”

Þrátt fyrir að neysla þeirra sem sprauta vímuefnum í æð standi í stað þá nýta sífellt fleiri sér þjónustu Frú Ragnheiðar með árunum. Heimsóknir í bíl Frú Ragnheiðar hafa fjórfaldast frá árinu  2015, en árið 2019 voru 514 einstaklingar sem nýttu þjónustu Frú Ragnheiðar og alls 4.149 heimsóknir.