Umhverfisvænar breytingar í SORPU

Eiður Guðmundsson, staðarstjóri á urðunarstöðum SORPU í Álfsnesi. Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

SORPA opnar glænýja gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi sem ber nafnið GAJA. Opnun stöðvarinnar er mjög stórt skref í umhverfismálum á Íslandi og er markmiðið að um 95% af heimilisúrgangi á höfuðborgarsvæðinu verði endurnýttur. Dæmi um slíkan úrgang eru matarafgangar og gæludýraúrgangur.

Úrgangur sem kemur frá heimilum höfuðborgarsvæðisins verður forflokkaður í móttökustöðunni í Gufunesi. Síðan fara efni sem ekki eru lífræn eins og til dæmis plast og málmar til endurnýtingar en lífrænu efnin verða flutt í gas- og jarðgerðarstöðina GAJA þar sem þau verða nýtt til framleiðslu á til dæmis moltu og eldsneyti.

Flokkun sorps á höfuðborgarsvæðinu
Í orkutunnunni (sorptunnunni) eru um það bil 70% lífræn efni. Á hverju ári hendir hver og einn íbúi á höfuðborgarsvæðinu um 145 kg af úrgangi. Endurvinnslan fer þannig fram að þegar orkutunnan er tæmd þá er plastinu blásið frá og sérstakur pokaopnari sér um að opna pokana. Þá eru málmarnir flokkaðir frá með segli, ruslið sigtað og sett í ferli hjá GAJA. Með þessu er hægt að endurnýta 95% af öllum úrgangi frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögin ákveða hvert fyrir sig hvernig þau hirða sorpið og því er mismunandi hvernig flokkunin fer fram.

„Einhver sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eru farin að skoða sérsöfnun á lífrænum heimilisúrgangi, sem þá kæmi til vinnslu í GAJA. Sérsöfnun þarf ekki að þýða ný tunna, sum sveitarfélög hafa farið þá leið að vera með sérhólf í „gráu tunnunni“ (tunnu fyrir blandaðan úrgang) og síðan er þessum tveimur úrgangsflokkum safnað samtímis. Með því næst bæði sparnaður og minna ónæði fyrir íbúa af sorphirðubílum,“ segir Eiður Guðmundsson, staðarstjóri á urðunarstöðum SORPU í Álfsnesi.

Gas- og jarðgerðarstöðin (GAJA). Ljósmyndari/Hinrik Aron Hilmarsson

Hugsa fyrir öllu
Bygging gas- og jarðgerðarstöðvarinnar (GAJA) hófst í október 2018 og er stærð hússins 12.800 m2. Stöðin mun ná að komast yfir allt að 35.000 tonn af lífrænum heimilisúrgangi. Tilgangur GAJA er að nýta bæði næringarefnin sem eru í lífrænum heimilisúrgangi og orkuna sem verður til við niðurbrot úrgangsins. Árlega mun stöðin framleiða um 12.000 tonn af jarðvegsbæti sem nýttur verður til landgræðslu og áburðar og einnig um 3 milljónir Nm3 af metangasi sem hægt verður að nýta sem eldsneyti á ökutæki.

„Það er mikil molta sem þarf að komast í notkun og við viljum náttúrulega sjá hana meðal annars í uppgræðslu. Okkur vantar jarðvegs- og næringarefni hérna á Íslandi þannig að við höfum í sjálfu sér ekki efni á að vera að henda öllum þessum lífræna úrgangi sem hent er í dag,“ segir Eiður.

SORPA hugsar fyrir öllu og byggði gufubað í bæði karla- og kvennaklefum GAJA svo starfsmenn geti fengið að svitna út óhreinindum dagsins og slakað á eftir vakt.

„Bestu hugmyndirnar verða oft til í gufubaði,“ segir Eiður og brosir.

Eiður Guðmundsson, staðarstjóri á urðunarstöðum SORPU í Álfsnesi. Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

Hætta allri urðun í Álfsnesi árið 2023
Undanfarin ár hafa um 120 til 140 þúsund tonn af úrgangi verið urðuð í Álfsnesi ár hvert. Sökum breytinga SORPU hvað varðar förgun og endurnýtingu úrgangs þá verður mun minni þörf á urðun næstu ár. Í lok árs 2023 verður því öll urðun í Álfsnesi lögð niður.

Þar sem efnið sem kemur til vinnslu í GAJA er efni sem áður var urðað, og allar varnir gegn mögulegri mengun eða neikvæðum umhverfisáhrifum frá GAJA mjög vandaðar, er einungis um jákvæð áhrif á umhverfið að ræða. Loftslagsáhrifin eru sparnaður uppá 90 þúsund tonn af koltvísýringsígildum á ári sem jafngildir því að taka 40.000 bíla af götunni. Metanið sem við framleiðum mun duga á svona 8.000 Skoda eins og ég segi stundum, sem er sennilega algengasti metanbíllinn á íslandi eða 60 strætisvagna sem eru í stöðugri keyrslu,“ segir Eiður.

GAJA kemur í veg fyrir lyktarmengun með því að hafa vinnsluna á jarðvegsbæti innandyra ólíkt mörgum öðrum sambærilegum stöðvum í Evrópu sem vinna að hluta til utandyra.

SORPA hefur framleitt metan eldsneyti úr hauggasi frá árinu 2000. Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

Íslenskt metan eldsneyti
Hátt yfir 1400 bílar á Íslandi ganga fyrir metani. Metanbílar eru margfalt umhverfisvænni en bílar sem ganga fyrir hefðbundnu jarðefnaeldsneyti. Hér á landi hafa bæði Askja og Hekla flutt inn metanbíla og þar af leiðandi boðið neytendum upp á umhverfisvænni valkost. Flest allir metanbílar hafa þó tvo eldsneytisgeyma svo bíllinn getur einnig gengið fyrir bensíni ef það er of langt að sækja í næstu metanstöð.

Gasgerðartankarnir tveir sem framleiða metan eldsneytið. Ljósmyndari/Hinrik Aron Hilmarsson

Við niðurbrot lífræns úrgangs myndast hauggas og hefur SORPA framleitt metan eldsneyti úr hauggasi frá árinu 2000. Árið 2016 hlaut íslenska metan eldsneytið norræna umhverfismerkið Svaninn. Svansvottunin staðfestir það að metanið sem framleitt er hérlendis stuðlar að lágmarkslosun gróðurhúsalofttegunda bæði þegar kemur að notkun og framleiðslu eldsneytisins.