Sex dýrum bjargað frá útrýmingu

Ýmsar dýrategundir hafa dáið út vegna áhrifa manna á umhverfið. En mannkynið hefur einnig gripið inn í á ögurstundu og tekist að bjarga dýrum frá útrýmingarhættu þó að fréttir af því séu ekki jafn tíðar.

Matador Network, National Geographic og Natural History Museum skrifuðu greinar um hóp dýra sem hefur verið bjargað frá útrýmingarhættu. 

Samkvæmt Matador Network voru hundruðir þúsunda hnúfubaka veiddir á 20. öld sem fækkaði stofninum um 90%. Þegar hvalveiðar í atvinnuskyni voru bannaðar á áttunda áratugnum voru færri en 300 hvalir eftir í Ástralíu, og einungis 700 í Norður-Atlantshafi. 

Bannið hafði mikil áhrif og nú fjórum áratugum síðar eru fleiri en 30.000 hvalir við austurströnd Ástralíu og alls 80.000 um allan heim. 

Fjöldi grábjarna hafa fjórfaldast þökk sé friðuðum svæðum
Fleiri en 50.000 grábirnir ráfuðu eitt sinn um landsvæði Norður-Ameríku. En um 1960 voru einungis 600-800 birnir eftir og árið 1975 fengu þeir vernd undir frumvarpi Bandaríkjanna til verndar dýra í útrýmingarhættu. Í dag hefur stofninn fjórfaldast og því er að þakka friðuðum svæðum ásamt aðgerðum til að hjálpa við samlíf bjarna og manna á svæðunum. 

Pöndur hafa lengi verið vinsælar meðal veiðiþjófa fyrir feldinn sinn og um 1960 voru einungis örfáar eftir í heiminum. Um 1980 voru um 1.100 pöndur í Kína og kínversk stjórnvöld tóku fast á veiðiþjófnaði, rétt í tæka tíð til þess að bjarga pandastofninum. Næstu áratugi voru stofnuð fleiri en 67 verndunarsvæði fyrir pöndur.

Kínversk stjórnvöld fylgjast grannt með árangrinum og gera umfangsmiklar landskannanir fyrir hvern áratug. Árið 2016 var stöðu pandastofnsins breytt úr „útrýmingarhættu“ í „viðkvæm“.

Pandabjörn. Ljósmynd/Canva

Fleiri fálkar finnast í dag heldur en á 20. öld
Á áttunda áratug seinustu aldar bættist förufálkinn í hóp dýra í útrýmingarhættu. Förufálkinn er útbreiddasti ránfuglinn sem verpir í öllum heimsálfum fyrir utan Suðurskautslandinu. Fálkinn er þekktur fyrir gríðarlegan hraða en hann dýfir sér eftir bráð sinni á 320 km hraða. 

Ástæða þess að fálkinn var að deyja út var sú að þrávirkt lífrænt efni að nafninu DDT barst í fæðu fálkanna sem samanstóð af öðrum fuglum og fiski. Ekki var DDT þó eini sökudólgurinn en veiði, minnkun búsvæða, eggjasöfnun og önnur mannleg áhrif voru einnig að verki. 

Árið 1972 var DDT bannað í Bandaríkjunum. Sú framkvæmd ásamt markvissri ræktun skilaði góðum árangri og stofninum fór aftur að fjölga. Hann er stöðugur í dag, og á vissum svæðum finnast fleiri fálkar en áður en þeim fór að fækka á 20. öld. 

Síberíutígurinn. Ljósmynd/Canva

Stofn Síberíutígursins orðinn stöðugur og fer fjölgandi
Síberíutígrar eru stærstu kattardýr veraldar. Búsvæði þeirra eru aðallega í Rússlandi en þeir finnast einnig í Kína og Norður-Kóreu. Veiðar og skógareyðing hafa fækkað fjölda tígrisdýra gríðarlega og um 1940 voru einungis um 40 villt Síberíutígrisdýr eftir í heiminum. Rússland setti tígurinn undir löglega vernd árið 1947 og þeim fór hægt að fjölga. Síberíutígra Verkefnið“ (e. Siberian Tiger Project) var sett á stofn árið 1992 og rannsakar vistfræði og náttúruverndarlíffræði tígursins í austurhluta Rússlands. Rannsóknir þeirra eru notaðar til þess að bæta vernd bæði tígrisdýranna og þeirra dýra sem tígrisdýrin veiða. Í kjölfarið hefur stofn tígrisdýranna í Rússlandi fjölgað í 502 samkvæmt tölum frá árinu 2015. Síberíutígrarnir eru enn í útrýmingarhættu en stofninn er þó orðinn stöðugur og dýrunum fjölgar hægt.

Á vefsíðu Natural History Museum kemur fram að skallaörninn var í mikilli útrýmingarhættu á 20. öld. Minnkun búsvæða, veiði og mikil notkun efnisins DDT gerði það að verkum að árið 1963 hafði stofn arnarins minnkað úr um það bil 100.000 í einungis 417 villt pör. En Bandaríkin tók á málunum og bönnuðu meðal annars DDT efnið árið 1973. Þessar aðgerðir skiluðu tilætluðum árangri og í dag finnast um 10.000 villt pör.

Sem betur fer erum við orðin meðvituð um þau áhrif sem að við erum að hafa á dýraríkið, þó að mikil vinna sé eftir. Listinn hér að ofan er ekki tæmandi og hann vekur mikla von um að við getum reynt að minnka skaðann sem hefur orðið vegna okkar.

6 dýrategundum sem hefur verið bjargað úr útrýmingarhættu. Ljósmynd/Canva