Ríkisstjórn Pakistan tekur af skarið gegn loftslagsbreytingum

Imran Khan, núverandi forsætisráðherra Pakistan. Ljósmynd/AFP via Getty Images

Pakistan hefur ekki farið varhluta af loftslagsbreytingum. Ýkt veðurskilyrði hafa einkennt landið undanfarin 20 ár og fjölmargir látið lífið í flóðum og hitabylgjum. Til að sporna við þessu var ákveðið að fara af stað með verkefni sem kallast Billjón Trjáa Flóðbylgjan í Khyber Pakhutunkhwa héraði í Pakistan. Imran Khan, stjórnmálamaður á þeim tíma en núverandi forsætisráðherra landsins var forsprakki verkefnisins sem hófst árið 2014 og áhrifin urðu strax veruleg. Ólöglegt smygl á timbri snarminnkaði og hundruð þúsundir trjáa voru gróðursett. 

Flóðbylgja af trjám
Náttúruverndarsinnar hafa löngum talað fyrir endurræktun skóga til að sporna við loftslagsbreytingum en
The Global Climate Risk Index 2020 setur Pakistan í fimmta sæti á lista yfir lönd sem hafa orðið fyrir hvað mestum áhrifum af hlýnun jarðar síðustu tvo áratugi, þrátt fyrir að losun koltvísýrings sé mjög lítil þar samanborið við önnur lönd. Samkvæmt WWF (World Wildlife Fund) – Pakistan þá hafa 43.000 hektarar (430 ferkílómetrar) af skóglendi horfið á hverju ári frá árunum 2000-2010. Til samanburðar þá er Þingvallavatn 82 ferkílómetrar.

Þegar Khan komst til valda árið 2018 setti hann nýtt verkefni af stað: Tíu billjón trjáa flóðbylgjan, sem, eins og nafnið gefur til kynna stefnir að því að gróðursetja enn fleiri tré til að berjast gegn hækkandi hitastigi og öfgakenndu veðurfari, en tímarammi verkefnisins er fimm ár.

Shangrila vatnið í Skardu, Pakistan. Ljósmynd/Canva

Yfir 30 milljón tré verið gróðursett
Í kjölfar COVID-19 faraldursins hafa margir þurft að flytja úr borgum og aftur til sinna heimabæja í sóttkví og hafa þar af leiðandi misst tekjur og eru ófærir um að sjá fyrir sjálfum sér og fjölskyldum sínum. Vegna kórónuveirunnar og fyrirskipunar um sóttkví var verkefninu því lokað tímabundið en hóf göngu sína aftur stuttu síðar en þá voru verkamenn hvattir til þess að virða tveggja metra regluna og þeim gert að vera með andlitsgrímur. Á þessu ári hefur tala þeirra sem hafa verið ráðnir til verkefnisins þrefaldast frá þeim tíma þegar verkefnið hófst. Samkvæmt verkefnastjóra Punjab héraðs, Shahid Rashid Awan, hefur 30 milljónum trjáa verið plantað síðan herferðin hófst, þar á meðal staðbundin tré eins og mórberja-, akasíu- og móringatré.

Í viðtali við Al Jazeera sagðist Rab Nawaz, sem er hluti af WWF-Pakistan, vera ánægður með framtak ríkisstjórnarinnar og hvernig umhverfisvæn störf hafi skapast en segir jafnframt nauðsynlegt að ríkisstjórnin leggi ekki alla orku sína  í baráttuna við loftslagsvána, heldur hugi einnig að fólkinu í landinu, og hvernig það geti aðlagast ört hækkandi hitastigi og breyttum aðstæðum.