Stress getur gert þig hamingjusamari

Ljósmynd/Canva

Stress er vel þekkt sem óvinur okkar. Hár blóðþrýstingur, höfuðverkir, hjartakvillar, sykursýki, vöðvabólga og þunglyndi eru meðal þeirra slæmu afleiðinga þess að hafa líkamann í stanslausu stressástandi. Hinsvegar sýna rannsóknir fram á það að stress er einungis slæmt fyrir okkur ef að við trúum því sjálf. Í raun getur stress gert okkur sterkari, greindari og hamingjusamari en aðeins ef að við opnum hugann fyrir því. 

Fyrirlesari í viðskiptaskóla Stanford, Kelly McGonigal kom fram í TedTalk og ræddi um hvernig hægt er að nýta sér stress til hins góða. Þar vísar hún í rannsókn sem var framkvæmd við Yale Háskólann af Alia Crum, Peter Salovey og Shawn Achor. Rannsóknin fylgdi 30.000 einstaklingum í Bandaríkjunum yfir 8 ár og byrjað var á að spyrja alla hvort að þau upplifðu stress í sínu daglega lífi, hvort að þau trúðu því að stress væri slæmt fyrir heilsuna og í lokin notuðu rannsakendur opinber skjöl til þess að sjá hverjir voru látnir.

Yale, einn virtasti háskóli heims. Ljósmynd/Canva

Þeir sem að upplifðu mikið stress í lífi sínu síðastliðið ár voru 43% líklegri til að deyja fyrir aldur fram, en hinsvegar átti það einungis við um þá sem að trúðu því að stress væri skaðlegt fyrir heilsuna. Þeir sem að upplifðu mikið stress en trúðu ekki á skaðsemi þess voru með mikið minni líkur á að deyja fyrir aldur fram og reyndar minnstu líkurnar af öllum í rannsókninni, þar með talið þá sem að upplifðu lítið stress yfirhöfuð.

Rannsakendur áætluðu að á þessum 8 árum sem að rannsóknin stóð yfir létust 182.000 Bandaríkjamenn óvænt. Stress var ekki að valda dauðsföllunum heldur trú einstaklinganna á að stress væri skaðlegt fyrir heilsuna. Það gera um 20.000 dauðsföll á hverju ári og ef þessi áætlun er rétt hjá rannsakendum þá er sjálf trúin á skaðsemi stress númer 15 á lista yfir algengustu dánarorsakir og algengara en dauðsföll vegna húðkrabbameins, HIV og alnæmi.

Hvernig er hægt að láta stressið hjálpa sér?
Mikilvægt er að þjálfa hugann til þess að breyta hugarfarinu varðandi stress og í kjölfarið bregst líkaminn öðruvísi við stressi. Kelly kom með gott dæmi í sínum fyrirlestri. Einstaklingur er að taka þátt í ákveðinni rannsókn að nafninu ,,Félagslega stressprófið’’ (e. The social stress test). Hann gengur inn á rannsóknarstofuna og honum er sagt að hann þurfi að koma með óvænta fimm mínútna ræðu um veikleika sína fyrir hóp af sérfræðingum. Skær ljós og myndavél skína framan í andlitið og sérfræðingarnir hafa verið beðnir um að sýna letjandi líkamstjáningu. Allt við rannsóknina er hannað til þess að gera einstaklinginn stressaðan. Annar hluti rannsóknarinnar er stærðfræðipróf og rannsakandinn er sérstaklega þjálfaður í að áreita þig á meðan prófinu stendur. 

Ef að þú værir að taka þátt í þessari rannsókn myndir þú líklega finna fyrir töluverðu stressi. Hjartað færi á fullt, andardrátturinn yrði örari og þú fyndir svitann spretta fram. 

Þegar að við finnum líkamann bregðast við á slíkan hátt þá tökum við því sem kvíða eða að við séum að kikna undan álaginu. Hinsvegar ættum við að hugsa að líkaminn okkar sé að gera okkur gott, hann er að hjálpa okkur, safna orku og gera sig tilbúinn fyrir krefjandi verkefni. Hjartað er að pumpa meira til þess að gera okkur viðbúin fyrir átök og andardrátturinn er örari til þess að flytja meira súrefni upp í heila.

Ljósmynd/Canva

Líkaminn trúir á okkur
Rannsakendur í Harvard háskóla báðu þátttakendur um að endurhugsa stressið sem góðan hlut, áður en þeir fóru í gegnum félagslega stressprófið. Þessir þátttakendur voru minna stressaðir, minna kvíðnir og sjálfsöruggari í prófinu en áhugaverðast er hvernig líkaminn þeirra brást við þessari hugarfarsbreytingu. Líkamleg viðbrögð við stressi gera það að verkum að æðarnar þrengjast vegna þess að hjartað pumpar ört og það er ástæðan fyrir því að langvarandi stress er stundum tengt við hjartakvilla enda er ekki hollt að vera í þessu ástandi til lengri tíma. Þeir þátttakendur sem að hugsuðu um stress sem góð viðbrögð upplifðu ekki slík viðbrögð og þeirra æðar þrengdust ekki. 

Þessi eina litla breyting í líkamlegu stressástandi gæti verið lykilmunurinn á milli þess að fá hjartaáfall vegna afleiðinga stress á sextugsaldri, og að lifa löngu afslöppuðu lífi. Ef að við trúum að líkaminn sé að hjálpa okkur þegar hann sýnir stressviðbrögð þá mun líkaminn okkar trúa okkur. Næst þegar að þú ert í stressandi aðstæðum sem að kveikja á líkamlegum viðbrögðum, reyndu að breyta hugarfarinu og þakka líkamanum fyrir að hjálpa þér að takast á við aðstæðurnar. Sú breyting getur bjargað lífinu þínu.