Þorp sérstaklega hannað fyrir fólk með heilabilun

Íbúar þorpsins. Ljósmynd/Aðsend

Kanadamenn hafa hafa farið af stað með brautryðjandi verkefni og þannig fetað í fótspor Hollendinga. Þeir hafa reist þorp sem er sérstaklega hannað fyrir fólk sem er með Alzheimer og annars konar elliglöp. Þorpið kallast „The Village“ en þar er húsnæði fyrir íbúa og stórt útisvæði auk fyrirtækja, til dæmis verslanir. 

Maðurinn á bakvið hugmyndina, Elroy Jespersen, segir að hann vilji að sjúklingunum líði eins og þeir búi yfir sama sjálfstæði og þeir sem eru heilbrigðir. Hann telur mikilvægt að fólkið tengist náttúrunni og lífinu utan veggja heimilisins. „The Village“ gefur þeim tækifæri á að lifa sínu lífi, bæði innan dyra og utan. Svæðið er 7,5 ekrur að stærð og er íbúum frjálst að ganga þar um garða, veitingastaði og önnur fyrirtæki sem eru staðsett á svæðinu. Umhverfis það hefur verið reist girðing sem passar að íbúarnir komist ekki út fyrir svæðið. Auk þess er íbúum skylt að vera með svokölluð heilsuarmbönd (e. wellness bracelets) sem notar Bluetooth tækni til að fylgjast með því hvar hver og einn er staddur. Þannig er enginn hætta á að neinn týnist.

The Village. Ljósmynd/Aðsend

Áherslan lögð á hvað fólk getur
Eins og áður sagði á þorpið sér fyrirmynd í Hollandi þar sem fyrsta slíka þorpið var byggt og kallast það De Hogeweyk og er staðsett í bænum Weesp. Þar er áhersla lögð á sjálfsforræði íbúanna. 

Fólk sem er með heilabilun á oft erfitt með að átta sig. Það verður óttaslegið, dapurt eða árásargjarnt. Hugsunin á bak við De Hogeweyk er að einbeita sér að því hvað gerir út af við þessar slæmu tilfinningar og leggja áherslu á heilsu sjúklinganna. Staðurinn leggur áherslu á að tryggja öryggi sjúklinga svo að þeir geti upplifað frið og ró í kunnuglegu umhverfi. Á De Hogeweyk fá íbúar að vera undir beru lofti og njóta náttúrunnar eins mikið og þeir vilja. Teymi sérfræðinga sér um að skipuleggja heimilishaldið eins og að kaupa í matinn, elda og þvo. Íbúum er gert að líða eins og að þeir séu að lifa eðlilegu lífi með þeim venjulegu skyldum sem því fylgja.

Húsnæði í The Village. Ljósmynd/Aðsend

Sérfræðingarnir leggja áherslu á það sem gengur vel en þessi nálgun gerir manneskju með heilabilun kleift að lifa í heimi sem hún skilur. Þetta veitir henni ákveðinn stöðugleika og samkvæmni í tilverunni án þess að líða illa með þá hluti sem hún getur ekki lengur sinnt. De Hogeweyk býður íbúum sínum að taka þátt í alls kyns félagsstarfi auk þess sem þeir geta farið út í búð, á veitingastaði, kaffihús og á snyrtistofu. Fólk er þannig hvatt til að taka þátt í daglegu lífi og komið er til móts við það þar sem það er statt hverju sinni.