Allir eiga rétt á húsnæði

Gestur Guðnason fyrrum gítarleikari sem lést 11. júlí 2019 eftir langa baráttu við alkahólisma. Ljósmynd/Linda Pétursdóttir

Teymi á vegum Reykjavíkurborgar styður við fólk í neyslu og hjálpar því að sækja sér þá grunnþjónustu sem það þarf á að halda.

Housing first er hugmynd sem á uppruna sinn í Bandaríkjunum snemma á tíunda áratugnum. Áhersla er lögð á að veita fólki húsnæði án þess að það þurfi að uppfylla einhverjar sérstakar kröfur. Það sé réttur fólks að eiga samastað sem gerir fólki svo auðveldara fyrir að verða aftur hluti af samfélaginu sem af einhverjum ástæðum það hefur fjarlægst.

Viðar Gunnarsson er menntaður félagsráðgjafi og teymisstjóri VoR teymisins en VoR er skammstöfun fyrir Vettvangs -og ráðgjafateymi. Tilgangur teymisins er að veita heimilislausu fólki stuðning en það ræðst algjörlega af þörfum og vilja þess sem nýta sér þjónustuna. Teymið hóf göngu sína árið 2015 og starfsmenn þess eru í dag níu talsins. Þar er meðal annars að finna hjúkrunarfræðinga, félagsráðgjafa og aðra fagaðila.

Viðar segir að Housing first sé byggt á hugmyndafræði sem stuðlar að valdeflingu og stuðningi við einstaklingana til að stjórna eigin lífi. Þá er gerður þjónustusamningur en hjálpin felst í bæði sálrænum stuðningi og heilsufarslegum. Einnig fara ráðgjafar með skjólstæðingum að sinna málum eins og að tala við stofnanir og leita sér læknisaðstoðar. Viðar segir að þeir sem nýta sér þjónustuna finni fyrir minni fordómum þegar aðili úr teyminu fer með þeim, en þegar þeir fara einir.

Viðar Gunnarsson, teymisstjóri VoR teymisins. Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

Housing first módelið byggir á því að veita fólki húsnæði óháð því hver staða þeirra er
Teymið tekur mið af Húsnæði fyrst (e. Housing first) sem byggir á að allir eigi rétt á húsnæði og fái að halda því með einstaklingsbundinni nærþjónustu undir formerkjum skaðaminnkunar. „Húsnæði er mikilvægt til að geta byrjað,“ segir Viðar. 

Viðar bendir á að teymið þjónusti meðal annars fólk sem mun dvelja í smáhýsum en um tuttugu þeirra hafa verið byggð þó ekki sé komin staðsetning fyrir þau öll. „Fimm þeirra verða líklega í Gufunesi,“ segir Viðar. „Þetta eru mjög flott hús en það vill enginn hafa þetta nálægt sér, því miður.“ 

VoR teymið leggur áherslu á skaðaminnkandi nálgun og vill þannig draga úr skaðsemi og áhættu sem fylgir neyslu, bæði fyrir einstaklingana sjálfa og samfélagið í heild. Þar með auka þau bæði heilsu þeirra og lífsgæði og lágmarka fjárhagslegan skaða sem einstaklingar og samfélög verða fyrir af vímuefnanotkun.

Viðar segir að enginn sé tilneyddur til að gera neitt sem viðkomandi er ekki tilbúinn að gera en þau séu samt sem áður í góðu sambandi við Vog og hjálpi þeim einstaklingum sem vilja komast í meðferð og reyna að koma þeim að eins fljótt og hægt er. 

Aðspurður hvort margir útlendingar nýti sér þjónustuna segir Viðar það ekki vera en bendir á verkefni sem kallast BARKA sem aðstoðar heimilislaust fólk af erlendum uppruna. Það verkefni hefur verið í gangi í fjögur ár og hefur hjálpað fullt af fólki að koma lífi sínu aftur á réttan kjöl.