Markþjálfun skýtur í mark

Guðrún Snorradóttir, markþjálfi. Ljósmynd/Aðsend

Markþjálfun er starfsheiti sem sífellt fleiri eru að komast í kynni við hér á landi. Eins og segir á profectus.is er markþjálfun verkfæri fyrir fólk sem vill auka árangur og skilvirkni. Markþjálfun felst í samræðum við markþegann sem fær hvatningu til að finna leiðir og tækifæri til að raungera markmið sín. Markþjálfun er byggð á öðrum fræðigreinum eins og leiðtogafræði, kennslufræði, sálfræði, taugavísindum og félagsvísindum. 

Öll áhersla er lögð á að viðskiptavinurinn finni sínar eigin lausnir. Markþjálfinn er aðeins þar til stuðnings til að halda utan um ferlið og beina viðskiptavininum að kjarna málsins með kraftmiklum spurningum. Á hverjum fundi fæst betri mynd af því hvaða leiðir eru áreiðanlegastar til að nálgast markmiðin. Draumar og væntingar fá á sig formfasta mynd sem hægt er að fylgja eftir. Markþjálfun hefur fest sig sífellt meira í sessi á undanförnum árum og því er að þakka góðum árangri hjá markþegunum og raunverulegum niðurstöðum sem ferlið hefur leitt af sér.

Persónulegur vöxtur, aukin lífsgæði og betri árangur
Guðrún Snorradóttir kynntist markþjálfun fyrst fyrir sjö árum og síðan þá hefur hún verið ómissandi þáttur í hennar lífi, bæði fyrir hana persónulega og sem atvinnusköpun. Það sem dró hana fyrst og fremst inn á þá braut er einlægur áhugi á mannfólki í allri sinni mynd. Hún nýtur þess sérstaklega að vinna með leiðtogum á ýmsum sviðum mannlífsins. 

Guðrún lauk BA prófi í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskólann í Malmö. Næst tók við markþjálfun í Háskólanum í Reykjavík og í kjölfarið mastersgráða í hagnýtri jákvæðri sálfræði frá Anglia Ruskin í Cambridge. Í dag starfar hún sem markþjálfi og að hennar mati er markþjálfun aðferð sem miðar að því að leysa úr læðingi innbyggða möguleika einstaklings eða hóps.“ Með markmiðasetningu styttist leiðin að tilteknu markmiði sem getur verið í formi persónulegs vaxtar, aukinna lífsgæða eða betri árangurs.

Ert þú föst/fastur á hringtorginu? Ljósmynd/Profectus.is

Markþjálfun býður upp á þroskandi ferðalag
Guðrún nefnir að hún hafi starfað við ýmislegt í gegnum tíðina og mörg störf hafi tengst þjónustu og ráðgjöf. Þá hefur hún starfað við stjórnendaráðgjöf og mannauðsráðgjöf. Það allra besta í  sambandi við starfið er að hennar sögn frelsið Að geta ákveðið hverjum ég vinn með og hvenær.“ Annar hápunktur finnst henni vera sá að geta nýtt fyrirlestraformið til að miðla reynslu sinni áfram og þjálfa ýmsa leiðtoga til að ráða enn betur við aðstæður og vera betur undirbúnir í starfi sínu.

Guðrún bendir á að það er mjög misjafnt eftir markþjálfurum hvaða hópa þeir taka að sér og hverjir sækja til þeirra. Minn stóri viðskiptamannahópur er aðallega samansettur af leiðtogum og stjórnendum og þá starfa ég í gegnum þeirra fyrirtæki.“ 

Markþjálfun býður upp á spennandi verkfæri og tækifæri til að kynnast sjálfum sér enda er starfsgreinin vaxandi og nýtur sífellt meiri vinsælda. Guðrún segir markþjálfun henti þeim sem vilja horfa í spegilinn og takast á við það flókna verkefni sem felur í sér að þroskast og vaxa sem manneskja, enda krefst það mikils hugrekkis að fara í slíkt ferðalag.

Jákvæðni þarf athygli og alúð til að blómstra
Markþjálfunin hefur veitt Guðrúnu tæki og tól til þess að halda einbeitingu og ná að fylgja eftir draumum sínum af fullum krafti. Til þess að það gangi sem best stundar Guðrún þakklæti og reglulega hreyfingu. Aðspurð hvaða speki Guðrún fylgir í lífinu vitnar hún í sálfræðinginn Viktor E. Frankl: Á milli þín og þess sem að gerist í lífi þínu er rými. Í því rými er þitt frelsi til að ákveða: hver ætla ég að vera?“ 

Guðrún lítur helst upp til þeirra sem hafa hugrekki til að horfa inn á við og elta drauma sína en hennar draumur er að koma boðskapnum sínum erlendis og nýta hvert tækifæri til að vinna stærri sigra. Á milli vinnustunda þykir henni best að lesa góðar bækur, drekka gott kaffi og eiga gefandi samtöl við vini.

Guðrún tekur undir þá staðhæfingu að yfirleitt sé einblínt mest megnis á hið neikvæða og að þörf sé á því að taka eftir hinu góða í fólki og aðstæðum. Við þurfum að gera okkur grein fyrir að hugur okkar hneigist frekar að hinu neikvæða þannig að jákvæðnin þarf okkar athygli og alúð til að blómstra. Þegar sú meðvitund hefur kviknað getum við tekið skrefin í átt að betra lífi.“