Ísland á filmu – nýr streymisvefur

Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

Ísland á filmu er nýr streymisvefur á vegum Kvikmyndasafns Íslands, en þar má finna myndskeið af fólki á Íslandi við ýmis störf allt frá árinu 1906 til okkar daga. Vefurinn er unninn í samvinnu við Dansk Filminstitut og er „Pilot Project“ eða tilraunaverkefni, en fleiri þjóðir hafa sýnt mikinn áhuga á að opna samskonar streymisvefi. 

Myndskeiðin eru aðgengileg á www.islandafilmu.is sem er lokað umhverfi og sérþróað. Notendur geta horft á myndskeiðin þar og deilt í gegnum Facebook og Twitter.

Á vefnum eru fyrst og fremst frétta– og heimildamyndir sem eru í eigu safnsins eða komin úr rétti. Dæmi um efni er m.a. myndskeið af refum úti í náttúrunni, vinnu– og listafólki við ýmis störf, tívolí í Vatnsmýrinni, eldgos á Fimmvörðuhálsi, fornleifauppgreftir, sundiðkun í Reykjavík (myndskeiðið með flestu áhorfin þar sem sjá má fólk baða sig í almenningssundlaug) og margt fleira. Efnið er bæði skemmtilegt og fróðlegt og er nothæft bæði sem kennsluefni í skólum, rannsóknarefni, og afþreyingarefni fyrir almenning. Vefurinn er líka sérlega sniðugur fyrir fólk sem hefur áhuga á að rekja ætt sína í gamla heimabæi, en á vefnum er kort af Íslandi þar sem notendur geta smellt á staði víðs vegar um landið og séð mynd eða myndskeið frá umræddum stað.

Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

Sögulegur viðburður
„Verkefnið er fyrst og fremst sögulegt vegna þess að í fyrsta sinn frá því að Kvikmyndasafnið var stofnað árið 1978 fær almenningur innsýn inn í safnkostinn,“ segir Þóra Ingólfsdóttir forstöðumaður safnsins. Safnið var stofnað með lögum hér á landi árið 1978 en söfnun á íslensku efni fyrstu árin má þakka mikinn áhuga nokkurra einstaklinga á málefninu.

Á vefnum eru bæði myndir og myndskeið, sum innan við hálfa mínútu að lengd en önnur nokkrir klukkutímar (einnig eru sum með tali en önnur þögul). Aðspurð hvort gamlar íslenskar kvikmyndir líkt og Síðasti bærinn í dalnum verði aðgengilegar inni á vefnum segir Þóra að ekkert sé útilokað í þeim efnum en það byggist m.a. á rétthafamálum. Danir hafa sett fjölda gamalla kvikmynda á sinn streymisvef og eru meðal annars með þöglumyndastreymisvef sem þeir opnuðu fyrir skömmu.

Ljósmynd/Hinrik Aron Hilmarsson

Hvað framtíðin ber í skauti sér
Íslenski vefurinn var opnaður nýlega og það er ekki sett inn efni daglega, en eins og stendur eru tæplega 300 myndir og myndskeið inni á vefnum, og stefnt er að því að bæta meira við í haust. Eins og gefur að skilja er þetta mikið og metnaðarfullt verkefni. „Gamalt efni safnsins er enn að mestu leyti hliðrænt en með tímanum verður það stafvætt. Safnið réð verkefnastjóra í fimm mánuði við að finna efni, klippa og setja á vefinn. Safnið hefur enn ekki fengið sérstaka fjárveitingu í þetta verkefni en mun sækja um slíkt til að geta haldið vefnum lifandi og uppfærðum reglulega,“ segir Þóra.

Hvernig sjáið þið vefinn fyrir ykkur næstu 10-15 árin? Búist þið við að hann breytist mikið með frekari tækniframförum?
„Við sjáum fyrir okkur að gamalt efni verði stafvætt og varðveitt á því formi, við viljum gera upp eins margar gamlar myndir og kostur er og við höfum til dæmis núna nýlega lokið við að gera upp Sögu Borgarættarinnar, en síðan er stefnan að gera upp myndir úr kvikmyndavorinu og koma fyrir augu almennings með einum eða öðrum hætti. Framtíðardraumur er að opna efnisveitu með sem mestu efni þar sem hægt væri að kaupa áskrift og sjá sem mest af íslenskum kvikmyndaarfi en það er framtíðarsýn sem krefst stafvæðingar og mikils undirbúnings. Síðan stendur til að sýna safnkostinn smám saman stafrænt, til dæmis myndir og sögu muna, prógrömm og fleira áhugavert sem leynist á safninu,“ segir Þóra sem bindur vonir við að safnið fái þau fjárframlög og mannafla sem eru nauðsynleg til að halda uppi vefnum og kynna enn frekar kvikmyndasögu þjóðarinnar.