Nýju dyraverðir tónlistarbransans

Canva

Margt hefur breyst með tilkomu tölvutækninnar síðustu áratugi. Skyndilega er orðið töluvert auðveldara að nálgast alls konar efni á netinu, en það var jafnframt mikið högg fyrir ýmsa iðnaði. Margir muna eflaust eftir auglýsingunum á DVD myndum í gamla daga, með dramatískri tónlist og upptalningu: „Þú myndir ekki stela bíl, þú myndir ekki stela veski …“ Svipaðar herferðir voru í gangi á fyrsta áratug 21. aldarinnar til að vernda tónlistariðnaðinn og báru sennilega jafn lítinn árangur og þessi eftirminnilega auglýsing. Í dag erum við komin töluvert lengra með að skilja þessa nýju tækni sem er augljóslega komin til að vera. Við höfum lært að vinna með henni í stað þess að streitast á móti. Það hefur sýnt sig að fólk er tilbúið að borga fyrir efni sem það fær á netinu. En það þarf að vera álíka einfalt í notkun og að hlaða því niður ólöglega.

Spotify vinsælasta tónlistarveitan 
Sænska fyrirtækið Spotify var stofnað árið 2006 og er í dag vinsælasta streymisveitan með yfir 286 milljón hlustendur um allan heim. Tónlistarmenn hafa nú meiri möguleika á að ná til breiðari hóps á heimsvísu en fyrir tíma hnattvæðingarinnar. Streymi eykst frá ári til árs sem eykur heildartekjur þeirra sem koma að sköpun og útgáfu tónlistar. Tölur yfir fjölda spilana á lögum eru farnar að gegna sambærilegu hlutverki og til dæmis geisladiskasala hér áður fyrr og staða á vinsældarlistum útvarpsstöðva. Fjölmargir íslenskir tónlistarmenn hafa náð miklum árangri á streymisveitum, en aldrei komist inn á vinsældarlista íslenskra útvarpsstöðva og eru jafnvel óþekktir hér á landi.

Rafdúettinn Hugar er dæmi um íslenska tónlistarmenn sem hefur fengið mikla spilun á lagalistum Spotify. Ljósmynd/Lilja Birgisdóttir

Í dag eru um 15 ár síðan streymisveitur hófu vegferð sína og eru þær, eins og annað á netinu, í stöðugri þróun. Spotify er gott dæmi um það en virkir notendur og tónlistarmenn fá að kynnast nóg af nýjungum á ári hverju. Fyrirtækið hefur til að mynda gjörbreytt notendaviðmótinu gagnvart tónlistarmönnum á síðustu misserum til hins betra, og má þar nefna heimasvæði fyrir listamenn (e. artist profile). Þar má nálgast ítarlegar tölfræðilegar upplýsingar um hvar og hvenær, og af hvaða hópum tónlistin hefur verið spiluð. Sömuleiðis er mikið af fræðsluefni um hvernig best er að koma tónlistinni á framfæri. Þetta eru mikilvægar upplýsingar fyrir listamenn sem vilja vita hvaða lög eru vinsælust og hvar þeirra aðdáendur eru búsettir. Á ýmsum eldri tónlistarveitum þurfti að borga sérstaklega fyrir þessar upplýsingar, en í dag fá allir tónlistarmenn með lög á Spotify aðgang að upplýsingunum sér að kostnaðarlausu.

Sérstakir lagalistar streymisveita
Á heimasvæðinu geta listamenn tilkynnt Spotify um útgáfu á nýju lagi og óskað eftir því að það verði tekið til greina að bæta því á sérstaka lagalista fyrirtækisins (e. editorial playlists). Það sem er athyglisvert við þetta er að starfsfólk Spotify hlustar á öll lög sem fara í gegnum kerfið og taka þau til greina. Ef lögin komast ekki inn á lagalista í fyrstu tilraun aukast samt líkurnar á því að það gerist í framtíðinni þar sem Spotify vinnur með algóriþma. Reglan er sú að ef að lag nær vinsældum á litlum lagalistum eru meiri líkur á því að það komist í kjölfarið á stærri lagalista sem gefur möguleika á enn meiri spilun.

Lagalistar á Spotify skiptast í nokkra flokka en til einföldunar verður hér aðeins fjallað um tvo þeirra. Það eru þessir sérstöku lagalistar fyrirtækisins (e. editorial playlists) og lagalistar hlustenda (e. listener playlists).

Fyrsti lagalistinn er búinn til af Spotify teyminu.Til að komast á þann lista þarf lagið að hafa verið sent til Spotify hátt í átta vikum fyrir útgáfu, eða þá að starfsmenn taki eftir mikilli spilun eftir útgáfu og ákveða að bæta laginu við. 

Það ríkja skiptar skoðanir um hvort þetta sé góð þróun að stórar streymisveitur eins og Spotify hafi þessi völd yfir því hverjir fái athygli hlustenda og hverjir ekki. En það jákvæða við þetta er að eftir því sem lagalistar hlustenda (e. listener playlists) verða vinsælli fá lagalistar fyrirtækisins (e. editorial playlists) smám saman minna vægi. Það eru s.s.  einstaklingarnir á bak við lagalista hlustendanna sem eru að verða hinir nýju dyraverðir tónlistarbransans.

Raven er dæmi um íslenska tónlistarkonu sem hefur fengið mikla spilun á lagalistum Spotify. Ljósmynd/Aðsend

Aðrir lagalistar
Það að búa til góðan lagalista er ákveðin list út af fyrir sig, og sumir hafa meira að segja atvinnu af því. 

Það er misjafnt hvernig fyrirkomulagið er. Sumir rukka ákveðna upphæð fyrir að hlusta á lög listamanna og taka þau til greina. Það er oftast gert vegna mikils fjölda fyrirspurna og þeir vilja þá geta skilað sem bestum gæðum í sinni vinnu. Sumir eru áhrifavaldar á miðlum eins og Instagram og Youtube, og svo eru ýmsir tónlistarmenn líka klókir að koma sinni tónlist á framfæri með því að búa til vinsæla lagalista með lögum annarra listamanna í bland við sín. 

Sumir eru skráðir á vefsíður á borð við Submithub þar sem tónlistarmenn geta fundið þá og sent þeim lögin sín gegn greiðslu. Aðrir rukka einungis upphæð ef lagið er valið inná lagalistann og þá getur verið sniðugt að kíkja fyrirfram á Chartmetric þar sem sjá má vöxt lagalista síðustu mánuði. Þannig geta tónlistarmenn komið í veg fyrir að kaupa sig inná lagalista sem kaupir fylgjendur en eru í raun ekki með neina spilun. 

Jafnari tækifæri en áður
Á blómatíma stórra útgáfufyrirtækja gat velgengni listamanna farið eftir því hvort viðkomandi væri einhver sem starfsfólki fyrirtækisins þótti auðvelt að markaðssetja, og vissu að höfðuðu til meirihluta hlustenda. En með tilkomu Internetsins breyttist þetta og auðveldara varð fyrir sjálfstætt starfandi tónlistarmenn að koma sér á framfæri og leyfa hlustendum að ákveða hvort þeir ættu erindi inn á markaðinn.

Þetta er stór breyting í átt að því að skapa jafnari tækifæri fyrir alla. 

Það hversu vinsæll þú ert orðin/nn, af hvaða kyni eða kynþætti þú ert, eða hvort þú sért með flott hár kemur málinu ekki við af því dyraverðir tónlistarbransans eru í grunninn almennir hlustendur með mikla ástríðu fyrir tónlist. Það eru einungis gæði tónlistarinnar og hversu vel hún passar við hin lögin á listanum sem skiptir sköpum. En fjölbreytni lagalistanna er mikil svo þetta er í raun allt saman spurning um að finna sinn vettvang. Það má með sanni segja að þetta sé skref í rétta átt og það verður spennandi að sjá hvernig þessi heimur heldur áfram að þróast í framtíðinni.