Sjá viðkvæmum hópum samfélagsins fyrir húsnæði

Shane Simpson, ráðherra sem heldur utan um málefni fátæktar og þjóðfélagsþróun í Kanada. Ljósmynd/ B.C. Government

Viðkvæmir hópar samfélagsins sem standa ekki jafn sterkum fótum í tilverunni og aðrir eru í meiri hættu þegar faraldur eins COVID-19 gengur yfir. Yfirvöld í Bresku Kólumbíu í Kanada hafa tæklað þennan vanda með því að kaupa hótel í Viktoríu, höfuðborg fylkisins. Þar hefur yfir 200 heimilislausum Kanadamönnum verið útvegað húsnæði sem samanstendur af 65 herbergjum. Yfirvöld hafa ákveðið að endurráða starfsfólk hótelsins til að sjá um starfsemina. Þarna eru slegnar tvær flugur í einu höggi. Bæði eru stjórnvöld að huga að samfélagslegum þáttum faraldursins en líka efnahagslegum afleiðingum hans á fólkið í landinu. Heimilislaust fólk getur ekki einangrað sig eins og aðrir og eru því í sérstökum áhættuhóp.

Viktoríuborg leyfði heimilislausum að tjalda í Topaz-garðinum meðan á heimsfaraldrinum stóð og unnið var að því að flytja fólk inn í örugga, tímabundna gistingu. Michael McArthur/CBC

Keyptu hótel til að hýsa heimilislaust fólk
Þetta hefur áður verið gert, en stjórnvöld keyptu mótel í borginni Prince Rupert í þeim tilgangi að breyta því í húsnæði fyrir heimilislausa. Áætlanir standa til að húsnæðið verði tilbúið árið 2021 og mun það vera útbúið 48 litlum íbúðum; hver og ein þeirra með baði og litlu eldhúsi. Kaup á þessum hótelum eru hluti af verkefni sem snýr að því að byggja viðráðanlegt húsnæði fyrir viðkvæma hópa; konur og börn sem eru að flýja ofbeldisfullar aðstæður, eldra fólk, lágtekjufólk og fólk sem er í hættu á eða er þegar orðið heimilislaust. Með þessum aðgerðum er stefnt að því að geta hýst um 3300 einstaklinga sem tilheyra þessum viðkvæmu hópum.

Á hótelinu eru 65 herbergi. Comfort Inn & Suites Victoria/Facebook

Fólk sem býr á götunni hefur ekki tök á því að sækja sér stuðning eða þjónustu sem það þarf á að halda. Shane Simpson, ráðherra sem heldur utan um málefni fátæktar og þjóðfélagsþróun í Kanada segir að með kaupum á hótelinu muni þau aðstoða fólk að koma sér af götunni og í varanlegt húsnæði. Auk þess sem hægt verði að sækja sér heilbrigðisþjónustu og aðra aðstoð því einstaklingar munu hafa aðgang að mat, læknisþjónustu, meðferðarúrræðum við fíknivanda sem og skaðaminnkandi úrræðum. Þarna verður pláss fyrir fólk til að flytja eigur sína í geymslu og auk þess verður starfsfólk á svæðinu allan sólahringinn sem passar upp á íbúana og nágrennið.