Býr til pálmaolíu á rannsóknarstofu

C16 Biosciences. Ljósmynd/Canva

Bandaríska fyrirtækið C16 Biosciences ætlar sér að tækla stórt umhverfisvandamál sem hefur víðtæk áhrif. Það hyggst skipta út pálmaolíu, sem spilar stóran þátt í eyðileggingu regnskóga og hlýnun jarðar, fyrir sambærilega olíu sem búin er til á rannsóknarstofu.

Milljarðamæringurinn Bill Gates stofnaði fjárfestingarsjóð árið 2015 ásamt öðrum fjárfestum til þess að styðja við nýsköpun sem berst á móti loftslagsbreytingum. Fyrr á árinu voru um 20 milljónir dollarar úr tilteknum sjóði nýttir til fjárfestingar í fyrirtækinu C16 Biosciences. Fyrirtækið hefur nú þegar vakið mikla athygli og eru yfir 100 vörumerki búin að sýna þeim áhuga eins og segir á vef Fast Company. Þau vinna nú hörðum höndum að því að koma olíunni á markað sem fyrst.

Umhverfisvæn pálmaolía. Ljósmynd/Canva

Hvað er pálmaolíuframleiðsla?
Pálmaolíuframleiðsla er ein af mörgum orsökum hlýnunar jarðar. Ekki er það þó olían sjálf sem er slæm heldur það hvernig hún er framleidd. Samkvæmt vef BBC eru regnskógar ruddir og brenndir til þess að gera pláss fyrir framleiðsluna. Við það losnar gríðarlegt magn af kolefnum út í andrúmsloftið og með því aukast áhrif loftslagsbreytinga.

Pálmaolía er ein af þeim jurtaolíum sem hvað mest er neytt af í heiminum. Í dag er varla hægt að fara í verslun án þess að koma heim með að minnsta kosti eina vöru sem inniheldur hana. Olían er talin vera í um helming af öllum þeim vörum sem seldar eru í stórverslunum í dag. Pálmaolíuna er meðal annars að finna í sápu, pizzu, tannkremi, varalit, ís, súkkulaði og svona mætti lengi telja.

Indónesía og Malasía eru þau lönd sem framleiða mesta pálmaolíu í heiminum og samanlagt sjá þau um að framleiða um 85% af allri pálmaolíu. Undanfarin ár hefur orðið mikil vitundarvakning varðandi áhrif pálmaolíuframleiðslu og margir neytendur reyna að komast hjá því að kaupa vörur sem innihalda hana.

Ekki er þó alltaf tekið fram að varan innihaldi „pálmaolíu þar sem hægt er að nota um 200 mismunandi heiti yfir olíuna samkvæmt The Guardian. Þetta gerir neytandanum ennþá erfiðara fyrir þegar reynt er að forðast kaup á olíunni. Því mætti segja að þeir framleiðendur sem taka það skýrt fram að það sé pálmaolía í vörunni séu siðferðislega “skárri” kostur heldur en þeir framleiðendur sem reyna að fela það.

C16 Biosciences. Ljósmynd/Canva

Umhverfisvæn pálmaolía
Fyrirtækið C16 Biosciences var stofnað með það markmið í huga að skipta út regnskógaeyðandi pálmaolíu fyrir sambærilega olíu sem er umhverfisvæn og gerð á rannsóknarstofu. Olían er búin til með gerjun á svipaðan hátt og bjór er bruggaður.

Eins og segir á vef Fast Company, þá ræktar fyrirtækið C16 ger í stáltönkum og verður þá til olía sem vex í frumum gersins.

„Okkar markmið er að enda þörf á eyðingu regnskóga fyrir pálmaolíuframleiðslu, sagði Shara Ticku, forstjóri og einn af stofnendum C16 Biosciences við Fast Company. „Okkur finnst gjörsamlega óásættanlegt að brenna plánetuna til þess að búa til jurtaolíu. Það bara nær engri átt og er algjörlega óásættanlegt. Það hlýtur að vera til betri leið og við viljum veita þá lausn.

Nú þegar hafa um tvö hundruð og fimmtíu fyrirtæki lofað því að hætta að nota pálmaolíu sem er ekki framleidd á vistvænan hátt. Þetta væri því fullkomin lausn fyrir þau. Fyrirtækið byrjar smátt og ætlar sér að vinna með vörur sem innihalda aðeins lítið magn af pálmaolíu til að byrja með. Þegar fyrirtækið hefur fengið stimpilinn frá FDA um að það sé öruggt getur fyrirtækið byrjað að nota olíuna í matvörur. Olían sem ræktuð er af C16 er talin efnafræðilega mjög lík náttúrulegri pálmaolíu. Hún virðist einnig virka á svipaðan hátt og verður því fróðlegt að fylgjast með þróuninni í náinni framtíð.